139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

200. mál
[17:37]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Við lok þessarar umræðu langaði mig einfaldlega til að vekja athygli á því að það frumvarp sem við ræðum hér gengur algerlega þvert gegn þeim hugmyndum sem við höfum verið að tala fyrir í Sjálfstæðisflokknum og hefur verið til umræðu í tengslum við þingsályktunartillögu okkar um aðgerðir til bjargar heimilunum og atvinnulífinu og til að taka á skuldavanda ríkisins eða rekstrarvanda. Aðgerðir sem þar eru kynntar til að loka fjárlagagatinu ganga allar í þveröfuga átt við það sem hér er verið að ræða. Hér er ekki einungis gengið mjög hart fram í viðbótarskattahækkunum heldur verða áfram á dagskránni ýmis önnur tekjuöflunarmál fyrir ríkissjóð þar sem við munum m.a. ræða nýja skatta sem að hluta til, að mínu áliti, eru kynntir hér undir fölsku flaggi eins og t.d. á við um skatt á fjármálafyrirtæki sem verður til umræðu hér á eftir.

Í heildina litið byggir þetta frumvarp á þeirri hugmyndafræði að eitthvert svigrúm sé til að auka álögur á skattgreiðendur í landinu. Við teljum svo ekki vera. Frumvarp eins og þetta verður að ræða í samhengi við hagvaxtarhorfur eins og að hluta til hefur verið gert hér í dag. Mig langar í lok umræðunnar til að taka undir með þeim sem hafa lýst áhyggjum af hagvaxtarhorfum næsta árs. Verkefnið er auðvitað það að fá að nýju drift í hagkerfið, fá vöxt, skapa ný störf og efla tekjustofnana eins og fram hefur komið í umræðunni.

Ég hef líka tekið eftir því að stjórnarliðar hafa komið hingað upp, eins og hv. þm. Helgi Hjörvar, og bent á að með því að lækka skatthlutföllin á umliðnum árum hafi tekjuöflunarkerfi ríkisins verið veikt svo mjög að það hafi ekki verið nægilega burðugt til að takast á við þessi áföll. Menn horfa fram hjá því, þegar þessum málflutningi er teflt fram, að við höfum tapað 20 þúsund störfum. Verkefnið er því að endurheimta þann vinnumarkað sem við vorum hér áður með. Við þurfum að koma aftur í vinnu þeim 11–12 þúsundum sem enn eru án atvinnu á Íslandi og við þurfum að skapa störf til að taka á móti þeim sem eru að koma inn á vinnumarkaðinn á næstu árum. Takist okkur þetta meginverkefni, leysum við það farsællega, munu skattstofnarnir taka við sér, þá mun tekjuskattur einstaklinga og fyrirtækja að nýju fara að skila ríkinu þeim tekjum sem við þurfum á að halda til að halda úti öflugu velferðarkerfi.

Sjáist mönnum yfir þetta mikilvæga atriði er auðvitað skiljanlegt að menn komist einfaldlega að þeirri niðurstöðu að skattar á Íslandi séu of lágir. Það er reginmisskilningur. Í þessu frumvarpi erum við með dæmi um skattahækkanir sem u.þ.b. fjórfalda skattana úr því sem var fyrir nokkrum árum. Ef við tökum einn einstakan lið hér, erfðafjárskattinn, vegna þess að hann er sagður mjög lágur hér á Íslandi — hann var jú lækkaður, þ.e. prósentan sjálf, niður í 5% og í frumvarpinu kemur fram að við séum ekki með skatthlutfall sem tekur mið af ólíkum skyldleika. Það er alveg hárrétt að erfðafjárskatturinn var einfaldaður mjög fyrir nokkrum árum og færður niður í 5% en um leið voru gerðar aðrar kerfisbreytingar eins og sú að frá þeim tíma sem breytingarnar voru gerðar var horft til markaðsvirðis eigna en ekki nafnvirðis þeirra.

Hver varð síðan afleiðingin af þessu nýja lága skattþrepi? Jú, skatturinn skilaði meiri tekjum fyrir ríkið. Ef við horfum til áranna fyrir og í kringum aldamótin 2000 var þessi skattur að skila ríkinu u.þ.b. 500 milljónum, kannski nær 600 þegar komið var fram yfir aldamótin. Eftir skattkerfisbreytinguna sem þá var gerð fór skatturinn að skila 700, 800 eða 900 milljónum og hefur verið að skila eitthvað í kringum milljarði.

Nú eru kynntar til sögunnar breytingar á þessum skatti, sem sagður er vera of lágur, sem munu taka þennan skattstofn, sem í gegnum tíðina hefur verið að skila 500 milljónum og hin síðari ár upp undir einum milljarði, upp í 2,3 milljarða og það er engin smáhækkun. Sama er hægt að segja um auðlegðarskattinn, það eru heilir 5 milljarðar sem samkvæmt frumvarpinu á að sækja með auðlegðarskattinum. Þetta eru bara tvö lítil dæmi sem ég nefni hér um nýja skatta og rökstuðning fyrir nýjum sköttum sem ég vil gagnrýna og ekki eru rök fyrir að kynna til sögunnar. Auðvitað óttast maður það líka með þessa tímabundnu skatta, sem við erum með til umfjöllunar í þessu frumvarpi, að þeir verði á endanum ekki tímabundnir, ekkert frekar en skattprósentan hélt lengur en eitt ár eins og t.d. í auðlegðarskattinum.

Að öðru leyti vil ég taka undir með þeim ræðumönnum sem hér hafa komið fram. Hér hefur verið bent á, eins og hv. þm. Birkir Jón Jónsson hefur verið að gera, að margir þessara skatta koma sér verst fyrir þá sem lægstar hafa tekjurnar eða eru með öðrum hætti ósanngjarnir eins og skattar vegna húshitunar. Hér er líka verið að kynna til sögunnar viðbótarálögur á bifreiðaeigendur. Maður spyr sig að sjálfsögðu, þegar Samtök atvinnulífsins og aðilar vinnumarkaðarins hafa þegar lýst þeirri skoðun sinni að svigrúmið sem ríkið hafði í friði við aðila vinnumarkaðarins til þess að hækka skatta sé fyrir löngu fullnýtt, hvers konar innlegg þetta frumvarp og hin frumvörpin sem við eigum eftir að ræða hér í dag eru inn í viðræður þessara aðila um nýja kjarasamninga. Auðvitað blasir við okkur öllum að þetta hlýtur að hleypa úlfúð í þá sem eru að leita sátta og friðar á vinnumarkaðnum.

Ég kem hingað upp í lok umræðunnar einfaldlega til að taka undir með þeim sem haldið hafa á lofti gagnrýni vegna þessa máls og vekja athygli á því að hér er á ferðinni stefnumörkun sem gengur þvert á það sem við höfum verið að tala fyrir hér í þinginu. Við höfum verið að tala fyrir því að þessar skattahækkanir nái ekki fram að ganga, það eru tæpir 11 milljarðar sem á að sækja með nýjum og hækkuðum sköttum samkvæmt fjárlagafrumvarpinu. Við viljum hafna þeim nýju álögum og við viljum gera meira, við viljum létta á heimilunum og atvinnustarfseminni, 10 milljörðum af heimilunum og 10 milljörðum af atvinnustarfseminni, með því að vinda ofan af þeim skattahækkunum sem ríkisstjórnin hefur þegar gripið til.

Órofa hluti af þeim tillögum eru að sjálfsögðu tillögur okkar í atvinnumálum og hv. þm. Ásbjörn Óttarsson fór aðeins yfir það í ræðu sinni að að sjálfsögðu verður að skapa ný störf til að styrkja tekjugrunnana. Það er mikilvægur hluti þeirrar umræðu að ræða um það hvernig okkur tekst að skapa störf, hvaða svigrúm er til þess að auka veiðar, hvar tækifæri eru til að laða hingað heim fjárfestingu, hvernig við getum nýtt auðlindirnar til að vinna með okkur í gegnum þessa krísu, hvernig við getum notað skattkerfið til að hvetja menn til athafna en ekki letja þá eins og þau mál gera sem við ræðum hér. Það eru lausnirnar sem við tölum fyrir hér í þingsölum.