139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki.

196. mál
[18:32]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort þetta frumvarp geti ekki fallið undir mismunun þar sem hér er sett ákveðið lágmark eða hámark — hvernig sem líta ber á það — þar sem þau fyrirtæki sem eru undir því hámarki greiða engan skatt. Hvað hefði gerst ef hæstv. fjármálaráðherra hefði valið hámarkið nægilega hátt til þess að einungis einn banki félli undir það og skattlagt svo nógu mikið fyrir ofan til þess að hafa sömu tekjur? Ég er ansi hræddur um að þetta sé mismunun enda er það ekki mjög almennt hvað varðar fyrirtæki að einhver hámörk séu í skattlagningu, það er yfirleitt línulegt.

Hér er talað um innlánstryggingakerfið — ég hef einmitt verið að kanna það hvort það sé komið í gildi. En það er ljóst að menn borga mjög lítið inn í það kerfi, 0,15% var það í gamla kerfinu. Það er í rauninni engin trygging í því kerfi fyrr en eftir sjö ár þegar það er komið upp í 1%. Og 1% er í raun heldur engin trygging fyrir þessum innstæðum vegna þess að það er bara 1% af heildarinnstæðum í landinu og dugar mjög skammt á jafnlitlum markaði og Íslandi. Spurningin er því: Af hverju eru þessar tryggðu innstæður hafðar til frádráttar þegar þær eru í rauninni ekki tryggðar?

Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra að þessari hugmynd minni um að bjóða út ríkisábyrgð, hvort það mundi ekki passa mjög vel inn í þetta kerfi og gefa hugsanlega miklu hærri tekjur en þessi skattlagning sem hugsanlega brýtur jafnræðisreglu.