139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki.

196. mál
[18:41]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég hef nú ekki miklar athugasemdir að gera við þessa ræðu. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni og tel að mörg gild rök megi færa fyrir þessari skattlagningu. Ég tel hins vegar rétt að menn hafi þann fyrirvara á að þetta þarf að þróast. Við þurfum að sjá hvernig framkvæmdin gengur og hvað er hóflegt í þessum efnum. Ég tel eðlilegt og sanngjarnt og rétt að fjármálakerfi búi sig undir að það verður ætlast til þess að það leggi af mörkum á komandi árum, m.a. til þess að taka niður þann kostnað sem ríkið hefur fengið á sig af þessum sökum og þá líka til að búa í haginn fyrir erfiða tíma sem eiga eftir að ganga í garð einhvern tímann seinna. Þetta er örugglega ekki síðasta banka- eða fjármálakreppan undir sólinni, því miður.

Þá er líka að því að hyggja að mikilvægt er að skoða hvernig útfærslan á gjaldinu verður best gerð þannig að það hvetji bankana að breyttu breytanda til að taka síður áhættu, að vera með sem traustasta starfsemi. Þannig er einmitt hugsun þessara bankaskatta. Það má jafnvel leika sér með hugmyndir um að hægt sé að leggja gjaldið þannig á með mismunandi hætti að það hafi enn meiri stýringaráhrif í þessum efnum, að það virki enn meira letjandi til mikillar áhættusækinnar hegðunar í fjármálakerfinu. Um þetta er heilmikið rætt og ritað, hvernig andlag skattsins ætti þá best að vera til þess að það næði sem best markmiðum sínum um það að skattleggja í raun og veru áhættusækna starfsemi í fjármálaþjónustu.