139. löggjafarþing — 32. fundur,  22. nóv. 2010.

tæki og búnaður á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni.

138. mál
[16:01]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég þakka fyrir fyrirspurnina þar sem vakin er athygli á því hversu fórnfúst starf heimamenn á mörgum stöðum hafa unnið, oftar en ekki í sjálfboðavinnu, fyrir mikilvægustu stofnanirnar í heimabyggð sinni, sem eru heilbrigðisstofnanirnar. Það er einn angi þeirrar umræðu sem við höfum átt í þinginu og í fjölmiðlum að undanförnu þar sem við höfum mörg viljað standa vörð um þá starfsemi sem þar er fyrir, sérstaklega til þess að gæta öryggis íbúa á viðkomandi svæðum.

Það er þess vegna ánægjuefni að verið sé að endurskoða það og þau illa ígrunduðu áform sem koma fram í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar sem íbúar landsbyggðarinnar hafa andmælt kröftuglega. Þess vegna þakka ég hv. þm. Eygló Harðardóttur fyrir að vekja athygli á því hversu tryggilega íbúar á þessum svæðum hafa staðið að baki þessum stofnunum og hversu fórnfúst starf þeir hafa unnið í sjálfboðavinnu, oftar en ekki til að tryggja öryggi (Forseti hringir.) og bætta aðstöðu á þessum mikilvægu stofnunum.