139. löggjafarþing — 32. fundur,  22. nóv. 2010.

Lánasjóður íslenskra námsmanna og ófjárráða háskólanemar.

169. mál
[16:56]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. menntamálaráðherra fyrir svörin. Það er gott að heyra að unnið hefur verið í málinu og verið að skoða það í kjölfar hreyfingarinnar sem var á því í byrjun júnímánaðar. Það er spurningin hvenær niðurstöðu er að vænta frá ráðuneytinu. Það eru fleiri aðilar að velta þessu fyrir sér og fleiri ungir námsmenn að koma inn í háskólana. Það er mikilvægt að breytingarnar og meira frelsi í menntamálum strandi ekki einhvers staðar á leiðinni, að við fylgjum málum eftir alla leið. Það er gott að menntamálaráðherra áttar sig á þessu. Við skulum einhenda okkur í að velja bestu leiðina og síðan gera breytingar sem nauðsynlegar eru til þess að koma til móts við þennan hóp sem ég vona svo sannarlega sé sístækkandi.

Ég tel það gríðarlega mikilvægt að ungt fólk hafi þetta val. Vonandi verður það ekki til þess að menn, eftir að þeir hafa klárað stúdentspróf á snöggan hátt, geti ekki fengið fyrirgreiðslu til þess að fá stuðning við háskólanám. Að það verði ekki til þess að menn geri eitthvað annað í nokkur ár áður en þeir hefja háskólanám.

Þannig að spurningin sem er ósvarað er: Hvenær er þess að vænta að niðurstaða komi frá ráðuneytinu um hvaða leið verður farin? Ég hvet hæstv. ráðherra til að flýta þeirri vinnu.