139. löggjafarþing — 33. fundur,  23. nóv. 2010.

störf þingsins.

[14:13]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég tek undir ákall þingmanna um ný og betri vinnubrögð á hinu háa Alþingi og í þingnefndum. Það ætti í sjálfu sér ekki að vera mjög flókið að koma þeim á. Það þarf bara að koma sér saman um hver þau vinnubrögð eigi að vera og hvernig við störfum á hinu háa Alþingi og í þingnefndum og þá væri t.d. hugmynd að láta af úthlutun á safnliðum og kjördæmapoti við fjárlagavinnuna. (BirgJ: Heyr, heyr.) Það er t.d. ein hugmynd sem ég vil setja í þetta púkk um ný og betri vinnubrögð á hinu háa Alþingi.

Við hv. þm. Ólöfu Nordal, varaformann Sjálfstæðisflokksins vil ég segja þetta: Væri ekki nær að hv. þingmaður leitaði í nærumhverfi sínu í þingflokki sjálfstæðismanna eftir skýringum á því hvaðan þrýstingurinn kom í svokölluðu Árbótarmáli? Og nefni ég þá enn og aftur blessað kjördæmapotið og hvernig þingmenn leggjast á sveif, ekki faglega, ekki einu sinni pólitískt, heldur með sértækum hagsmunum í eigin kjördæmi. (GÞÞ: Bíddu, er Steingrímur ekki í kjördæminu?) [Kliður í þingsal.]

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður um hljóð í salnum.)