139. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2010.

störf þingsins.

[14:05]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Lilju Mósesdóttur fyrir að vekja máls á þeim dökku horfum sem eru í efnahagslífi landsmanna og Hagstofan hefur birt að undanförnu. Við höfum ekki náð þeim árangri sem við ætluðum okkur að ná til að koma okkur út úr þessari kreppu. Ég er sammála hv. þingmanni um að eilífur niðurskurður og eilífar skattahækkanir eru ekki lausnin á vandanum. Við þurfum að brekka skattstofnana og við þurfum að breyta stefnu ríkisstjórnarinnar í þessum efnum. Þess vegna er fagnaðarefni að formaður viðskiptanefndar Alþingis skuli koma hingað og gagnrýna þessa stefnu með mjög réttmætum hætti. Við höfum heyrt að undanförnu, m.a. frá aðilum vinnumarkaðarins, að sú áætlun sem ríkisstjórnin styðst við gengur einfaldlega ekki upp. Þess vegna verðum við að endurskoða þær áætlanir sem og fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar. Að öllu óbreyttu mun kaupmáttur almennings skerðast á næsta ári enn frekar en orðið er. Það bætist ofan á mikinn skuldavanda sem við hv. þingmaður höfum nú talað um í á annað ár. Þessi skuldavandi er orðinn að grafalvarlegum greiðsluvanda. Fólk getur varla náð endum saman. Hjá Hagstofunni var birt könnun um daginn þar sem kom í ljós að helmingur heimila í landinu hefur átt í erfiðleikum með að ná endum saman á síðustu 12 mánuðum. Það segir okkur hversu alvarleg staðan er í íslensku samfélagi. Við þurfum að breyta um stefnu og ef við horfum á að það á að skerða enn frekar kaupmátt þessara aðila, heimilanna í landinu, er alveg ljóst að vandinn mun aukast en ekki minnka.

Ég fagna því að hv. þingmaður, formaður viðskiptanefndar Alþingis, skuli koma hingað með gagnrýni á ríkisstjórnina. Hún er réttmæt, við þurfum að breyta (Forseti hringir.) um kúrs, við þurfum að breyta þessari stefnu sem snýst einungis um að hækka áfram skatta á heimili og fyrirtæki (Forseti hringir.) og skera mjög blóðugt niður. Við þurfum (Forseti hringir.) að breikka tekjustofnana.