139. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2010.

störf þingsins.

[14:09]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka upp málefni drengsins norður á Akureyri, enda er alltaf erfitt að horfast í augu við það að við búum ekki við jafna stöðu í samfélaginu.

Ég ætla að vinda mér beint í að svara spurningunni. Hv. þingmaður spyr hvort ég telji að þetta eigi að vera á forræði Tryggingastofnunar. Tryggingastofnun greiðir framfærslueyri, getum við sagt, í formi lífeyristrygginga eða hún bætir upp fyrir kostnað vegna fötlunar, sjúkdóms eða einhverra þeirra aðstæðna sem gera það að verkum að fólk þarf á sértækri aðstoð að halda. Tryggingastofnun hefur ekkert með húsnæðismál að gera og ég tel þetta ekki eiga heima þar.

Hitt er annað mál að það er alvarlegt vandamál að við gerum ekki almennilega ráð fyrir því í okkar kerfi að gera þurfi breytingar á húsnæði fyrir þá sem af einhverjum ástæðum eru hreyfihamlaðir. Þó að ríkisvaldið hafi áratugum saman, eða síðasta áratug getum við sagt, breytt Íbúðalánasjóði og verið hér með umfangsmikil húsnæðislán hefur ekki verið gert ráð fyrir því í útgjöldum ríkisins til húsnæðismála að standa straum af kostnaði sem þessum. Í dag bjóðast fólki eins og fjölskyldu drengsins fyrir norðan lán á markaðskjörum til að breyta húsnæði sínu. Þetta er ekki í anda jafnaðarstefnunnar og ekki í anda hins góða samfélags þannig að þetta er nokkuð sem verður að breyta. Við verðum að finna leiðir til að niðurgreiða vexti í bland við styrki til að gera slíkar breytingar á húsnæði mögulegar. Við munum beita okkur fyrir því jafnt í húsnæðismálum sem (Forseti hringir.) og í málaflokki fatlaðra.