139. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2010.

störf þingsins.

[14:19]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er ekki annað hægt en að láta nokkur orð falla í framhaldi af þessari umræðu um stöðu efnahagsmála. (Gripið fram í: Róa Alþingi.) Það er þægilegt að finna sökudólga fyrir efnahagsstöðu sinni í einhverjum öðrum. Einkanlega er auðvelt að finna einhverjar vondar stofnanir í útlöndum sem eru ábyrgar fyrir þeim eins og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. En auðvitað er það ekki þannig. (Gripið fram í: …krafa.)

Hvorki mun það að halda áfram að safna skuldum og forðast erfiðar ákvarðanir um niðurskurð (Gripið fram í: Icesave?) né að hækka skatta frekar eins og hv. formaður viðskiptanefndar hefur lagt til skapa hér hagvöxt. Það sem mun skapa hér hagvöxt og koma hjólum efnahagslífsins af stað er fjárfesting, (Gripið fram í.) ekki síst erlend fjárfesting. (Gripið fram í.) Samstarf við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn er lykilatriði í því að koma af stað þeim fjárfestingarverkefnum sem okkur hefur enn ekki tekist að hrinda af stað. Ein af ástæðum þess er að við höfum ekki verið fær um að leysa úr gríðarlega erfiðum deilum við nágrannaríki okkar og höfum þannig einangrast í stöðu okkar hér. (Gripið fram í.) Við eigum ekki að benda á einhverjar stofnanir í útlöndum og reyna að kenna þeim um, heldur eigum við sjálf, kjörnir alþingismenn á Alþingi Íslendinga, að taka á þeim málum. Það má taka undir að einn af þeim þáttum sem hefðu hjálpað okkur hér væri að við værum búin að hrinda af stað þeim aðgerðum sem duga í skuldamálum heimilanna. Það þýðir sömuleiðis ekki fyrir hv. þingmenn hér, hvað þá nefndarformenn á Alþingi Íslendinga, að benda á einhverja aðila úti í bæ og kenna þeim um að ekki hafi verið tekið nógsamlega á þeim. Það er okkar, kjörinna fulltrúa, sem sitjum hér að ljúka því verki og þýðir ekki að benda út í bæ (Forseti hringir.) og kenna öðrum um það sem maður hefur ekki sjálfur komið í verk. (LMós: Þú hefur nú staðið í vegi fyrir því en ekki ég.) (Forseti hringir.)

(Forseti (ÁRJ): Hljóð í þingsal.)