139. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2010.

raforkulög.

204. mál
[15:08]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breyting á raforkulögum, nr. 65/2003. Með þessu frumvarpi er verið að leggja til að framkvæmd ákvæðis 2.–4. málsl. 1. mgr. 14. gr. laganna, þar sem kveðið er á um samkeppnis- og sérleyfisstarfsemi orkufyrirtækja verði rekin í aðskildum fyrirtækjum, verði frestað til 1. janúar ársins 2012, eða um eitt ár. Að óbreyttu kemur ákvæðið til framkvæmda 1. janúar næstkomandi.

Umrætt ákvæði 14. gr. raforkulaga var samþykkt á Alþingi að vori árið 2008 með lögum nr. 58/2008, og átti þá upphaflega að koma til framkvæmda frá og með 1. júlí árið 2009. En í greinargerð með frumvarpi til þeirra laga kom fram að rökin að baki kröfu um aðgreiningu samkeppnis- og sérleyfisþátta í rekstri orkufyrirtækja, svokallaður fyrirtækjaaðskilnaður, væru tvíþætt: Í fyrsta lagi þyrfti að gera þá kröfu svo unnt væri að setja reglur um opinbert eignarhald fyrirtækja sem stunda sérleyfisstarfsemi og í öðru lagi að með aðgreiningu þessara þátta í starfsemi raforkufyrirtækja væri betur unnt að tryggja að allir orkuframleiðendur sætu við sama borð í samskiptum sínum við þau fyrirtæki sem annast dreifingu á raforku. Það kæmi í veg fyrir samkeppnishindranir sem kynnu að leiða af því að sérleyfis- og samkeppnisstarfsemi væri á sömu hendi.

Í kjölfar beiðni frá Orkuveitu Reykjavíkur var gildistöku áðurnefndrar breytingar á 14. gr. sem um ræðir frestað til 1. janúar 2010 með samþykkt laga nr. 30/2009. Með lögum nr. 142/2009, um breytingu á raforkulögum, var gildistöku breytingarinnar í 14. gr., um aðgreiningu samkeppnis- og sérleyfisþátta í rekstri orkufyrirtækja, frestað í annað sinn til 1. janúar ársins 2011 sem nálgast brátt. Í báðum tilfellum var í greinargerð vísað til aðstæðna á fjármálamörkuðum og viðkvæmrar stöðu orkufyrirtækja varðandi fjármögnun.

Með bréfi, dags. 6. september síðastliðinn, fór eigendanefnd Orkuveitu Reykjavíkur þess á leit við iðnaðarráðherra að framkvæmd þessa ákvæðis raforkulaga yrði frestað í þriðja sinn tímabundið. Í bréfi eigendanefndarinnar kemur fram að Orkuveita Reykjavíkur standi nú frammi fyrir viðræðum við lánardrottna um endurfjármögnun lána félagsins og að skuldabyrði fyrirtækisins sé veruleg. Við slíkar aðstæður, og vegna gjaldskrárhækkana og niðurskurðar í rekstri, sé erfitt fyrir fyrirtækið að leggja í aðgerðir til að mæta þessum kröfum fyrir 1. janúar næstkomandi. Þá er það mat eigendanefndar Orkuveitu Reykjavíkur að lögformlegur aðskilnaður dreifiveitu frá annarri starfsemi félagsins sé ekki til þess fallinn að stuðla að hagkvæmari nýtingu framleiðsluþátta, neytendum til hagsbóta, sem sé hinn almenni tilgangur samkeppni á markaði.

Auðvitað má deila um þetta. En fyrir utan það sem hér hefur verið rakið hef ég ákveðið, að höfðu samráði við fyrirtækið, með frumvarpi þessu að leggja til við þingið að gildistöku ákvæðis um aðgreiningu samkeppnis- og sérleyfisþátta í rekstri orkufyrirtækja verði frestað í þriðja sinn, eða til 1. janúar 2012.

Eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu mun iðnaðarráðuneytið nýta þann tíma sem gefst til 1. janúar 2012 til að gera hagfræðilega úttekt á áðurnefndum fullyrðingum Orkuveitu Reykjavíkur á því hvort sá fyrirtækjaaðskilnaður samkeppnis- og sérleyfisþátta í rekstri orkufyrirtækja sem mælt er fyrir um í gerðum Evrópusambandsins á sviði raforkumála eigi að öllu leyti við um markaðsaðstæður hér á landi og hvort hann sé til þess fallinn að skapa samkeppnisumhverfi sem sé neytendum raforkuþjónustu til hagsbóta.

Við munum því nota tímann vel. Það er von mín að ekki þurfi að koma til annarrar frestunar, en eins og allir vita höfum við lifað óvenjulega tíma í íslensku efnahagslífi síðastliðin tvö ár og því er kannski ekki undarlegt þó að svona lagað gerist.

Málið hefur beðið nokkuð eftir því að komast á dagskrá þingsins. Ég vona engu að síður að gott samkomulag náist í iðnaðarnefnd um að ljúka málinu fyrir jólahlé þannig að frestunin megi verða, með þeim fyrirheitum að iðnaðarráðuneytið muni vinna hratt og vel að þessari úttekt þannig að hún liggi fyrir á næsta ári.

Að því sögðu mælist ég til þess að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. iðnaðarnefndar.