139. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2010.

raforkulög.

204. mál
[15:19]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Úr því að hv. þingmaður nefnir þessa lögfræðilegu úttekt þá erum við býsna langt komin með hana í ráðuneytinu. Það er eðlilegt að hún fylgi með í heildarúttekt á stöðunni vegna þess að við viljum auðvitað ræða þetta mál opinskátt og þótt ég gangi kannski lengra en skoðanir mínar á málinu sjálfu eða endanlegri niðurstöðu gefa til kynna er eðlilegt í ljósi ítrekaðra óska um frestun að vandlega sé farið yfir málið af okkar hálfu. Sviðsmyndirnar verða a.m.k. teiknaðar upp þannig að þær liggi fyrir þegar við tökum endanlega ákvörðun um málið. Sú ákvörðun á ekki bara að byggja á prinsippum heldur verðum við líka í ljósi breyttrar stöðu í samfélaginu, í efnahagslífinu, að horfa út fyrir rammann og líta til hinna efnahagslegu áhrifa þessara breytinga. Það skiptir máli að við gerum það með opin augu. Þess vegna leggjum við í þá vinnu núna.

Bara til að það komi fram er Orkuveita Reykjavíkur ekki endanlega búin að ljúka uppskiptingunni, þó er bókhaldslegum aðskilnaði í sérleyfis- og samkeppnisþáttum lokið. HS Orka og HS Veitur eru orðnar sitt hvort fyrirtækið þó að enn þá sé starfandi sami forstjóri — aðskilnaður er ekki orðinn 100% sem er kannski minna mál en það sem hér um ræðir.

Ég segi bara: Notum tímann vel. Ég þakka hv. þingmanni ábendingarnar og mun láta lögfræðilegu úttektina sem við gerðum fylgja hinni hagfræðilegu þegar að því kemur.