139. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2010.

dómstólar.

246. mál
[17:07]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér eru engar ambögur á ferðinni og ekki hægt að misskilja margt tel ég vera. En eitt er náttúrlega ljóst að hér er byggt á áætlun sem ræðst af því hve mörg mál koma til kasta dómstólanna og fjárhæðirnar snúa að sjálfsögðu að því. Þetta hlýtur því að vera matskennt, þetta byggir að sjálfsögðu á áætlunum hvað þetta snertir.

Ég hef síðan gert grein fyrir því á hvaða forsendum gjöldin eru innheimt. Síðan fer þetta mál að sjálfsögðu til allsherjarnefndar Alþingis. Þar munu sérfræðingar koma inn og reiða fram svör við öllum þeim spurningum sem óskað er eftir. Ég hef gert hér grein fyrir því sem snýr að öllum frumforsendum, á hvaða forsendum þessi gjöld eru reiknuð og öllum grunnþáttum í þessu frumvarpi. Síðan er það allsherjarnefndar að fara ofan í einstaka (Forseti hringir.) liði þess.