139. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2010.

landsdómur.

247. mál
[17:56]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður kýs, eins og hæstv. ráðherra, að forðast að ræða öll prinsipp. Það er kannski vegna þess að þeim þykja þau ekki skipta neinu máli. En hér er spurt um efnislegar athugasemdir við frumvarpið. Ég sagðist ekki ætla að gera það, ég sagði að rétt væri að leyfa nefndinni að fjalla um það. En það t.d. blasir við að 5. gr. þessa frumvarps er sakborningi ekki í vil, það blasir við. En það er kannski kominn tími til þess að hv. þingmaður komi hingað upp og geri grein fyrir öðru máli sem er það að við atkvæðaskýringu hér þegar ákært var til landsdóms taldi hv. þingmaður ekki tilefni til þess að ákæra mann, nefnilega fyrrverandi viðskiptaráðherra, vegna þess að aðrir sem í ákæruskjalinu voru greindir voru ekki að fara að svara til saka fyrir landsdómi heldur einungis forsætisráðherrann. Með þeim rökstuðningi kom hv. þingmaður hingað upp og gerði grein fyrir því að það væri rétt að senda ekki hæstv. fyrrverandi viðskiptaráðherra fyrir landsdóm. Þá hlýtur auðvitað að standa eftir spurningin: Af hverju var þá ástæða til að senda hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra fyrir landsdóm? Vegna þess að ef maður notar sama rökstuðninginn hefði hv. þingmaður átt að komast að sömu niðurstöðu um hann. Nema þá að hann hafi talið það vera of seint en þá hefði það átt að koma fram í máli hans.