139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

lausn á skuldavanda heimilanna.

[10:38]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það hefur alltaf verið talað um það í öllu ferlinu, m.a. Hagsmunasamtök heimilanna, að nauðsynlegt sé að ná samningum við bankana og lífeyrissjóðina ef við ætlum að fara út í víðtækar aðgerðir í þessu skyni. Menn töldu ekki ráðlegt að fara út í aðferðir í andstöðu við bankana sem kallað gæti á mjög víðtæka skaðabótaábyrgð á hendur ríkinu og við heyrum hvernig forsvarsmenn lífeyrissjóðanna tala. Þeir telja að það muni skerða réttindi sjóðfélaga ef farið verður út í víðtækar aðgerðir af þeirra hálfu.

Ég hef ekki útilokað að við gætum farið í lagasetningar sem hjálpuðu okkur a.m.k. við að fara í aðgerðir fyrir skuldsett heimili ef ekki nást samningar við bankana. Mér finnst alveg lágmark að bankarnir hjálpi okkur þá að fjármagna þær aðgerðir sem þarf að fara í ef þeir vilja ekki vera beinir þátttakendur í því. En það er auðvitað vandmeðfarið. Við erum sérstaklega að skoða heimili sem eru yfirskuldsett og reyna að gera sérstaka greiðsluaðlögun virkari. (Forseti hringir.) Ef fara á út í almennar aðgerðir í almennum skuldaaðgerðum hjá bönkunum, þ.e. hjá yfirskuldsettum heimilum, er það líka vandmeðfarið svo við brjótum ekki á jafnræði þegnanna.