139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

skuldir heimilanna.

[10:40]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Við höfum verið að ræða stöðu efnahagsmála og þá framtíð sem blasir við okkur að öllu óbreyttu. Í gær átti ég samtal við formann viðskiptanefndar Alþingis, hv. þm. Lilju Mósesdóttur, sem lýsti sig algerlega andsnúna þeirri stefnu sem ríkisstjórnin hefur markað í því fjárlagafrumvarpi sem blasir við okkur í dag. Þar komum við að tveimur þáttum: Í fyrsta lagi er allt of hart fram gengið í skattahækkunum á fólk og fyrirtæki og í öðru lagi er sá mikli skuldavandi sem blasir við þjóðinni í dag orðinn að heljarmiklum greiðsluvanda. Mig langar þess vegna að spyrja hæstv. ráðherra að því hvort hún telji ekki nauðsynlegt að ráðast í almennar aðgerðir til að leiðrétta skuldir heimila og fyrirtækja í landinu.

Ég fagna því sérstaklega að hæstv. forsætisráðherra ætlar að hitta fulltrúa Framsóknarflokksins og Hreyfingarinnar á næstu dögum en óþolinmæðin í samfélaginu eftir einhverjum raunverulegum aðgerðum er orðin mikil þegar kemur að þessum málum.

Í morgun var viðtal við formann samninganefndar Starfsgreinasambands Íslands og hann heitir Björn Snæbjörnsson. Hann talaði sérstaklega um málefni heimilanna og skuldir þeirra og að það væri jafnvel eitt aðalatriðið sem kæmi út úr komandi kjarasamningum, hvort ríkisstjórnin ætlaði að beita sér fyrir einhverjum almennum leiðréttingum á skuldum heimilanna vegna þess að skuldirnar hafa stökkbreyst. Þær eru orðnar svo háar og greiðslubyrðin er orðin svo þung að verkalýðshreyfingin er farin að beita sér af alefli ásamt okkur í stjórnarandstöðunni til að hvetja ríkisstjórnina til einhverra raunverulegra aðgerða. Það er því eðlilegt að ég spyrji hæstv. forsætisráðherra að því hvort hún ætli að beita sér fyrir leiðréttingum á lánum skuldugra heimila í þessu landi, sérstaklega í ljósi þess að erfiðir kjarasamningar eru fram undan.