139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

takmarkanir á dragnótaveiðum.

[11:47]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Fyrst varðandi það hvernig málið er unnið er alveg ljóst að þetta er gert samkvæmt stefnumörkun. Það eru ekki svo miklar lokanir fyrir og sem lagðar eru til, það er innsti hluti Húnafjarðar, innsti hluti Skagafjarðar og innsti hluti Önundarfjarðar. Áður en til þessa kom voru drögin að reglugerðinni send út og auglýst til umsagnar þeim sem vildu koma sjónarmiðum á framfæri. Það var ekki mikið um það. Hins vegar verð ég að segja að þeir eru miklu fleiri sem hafa síðan fagnað þessum aðgerðum.

Ég vil vekja athygli á því að t.d. á innanverðum Breiðafirði, þaðan sem hv. þm. Ásbjörn Óttarsson kemur, var lokað fyrir botnvörpu-, dragnóta- og netaveiði að ósk heimamanna og var sú framkvæmd gæfuspor. Ég held að enginn vilji bakka frá því núna þrátt fyrir yfirlýsingar hv. þingmanns.

Ég vil líka minna á að innsti hluti Eyjafjarðar hefur sömuleiðis verið lokaður fyrir dragnót. Ég heyrði að hv. þm. Kristján Þór Júlíusson fór fram á að Eyjafjörðurinn yrði opnaður aftur. Fleiri slíkir innfirðir hafa verið lokaðir og ef fara á eftir orðum hv. þm. Ásbjarnar Óttarssonar á bara að gefa þetta allt frjálst.

Hitt er svo annað að ég tek undir að auka þarf rannsóknir á þessu sviði, ég hef lagt drög að því að svo verði gert, bæði að þessum aðgerðum og öðrum verði fylgt eftir með rannsóknum.

Ég tek hins vegar mikið mark á mörgum af þeim fiskimönnum sem lýst hafa fyrir mér hversu nauðsynlegt þetta er. Ég vitna líka til þeirrar skýrslu sem ég sagði frá áðan sem rakti botnvörpuveiðar og áhrif þeirra og hvaða tillögur voru hafðar þar uppi. Ég get alveg fullvissað hv. þingmann um að ég mun áfram vinna í þessa veruna, að láta náttúruna njóta vafans (Forseti hringir.) í þessum efnum, og frábið mér yfirlýsingar um að hér sé verið að setja einhvern atvinnuveg á hliðina þótt allnokkrum grunnslóðum í (Forseti hringir.) innvíkum og -fjörðum sé lokað fyrir þessum stórvirku veiðarfærum. Það verður stefna mín áfram.