139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

málefni fatlaðra.

256. mál
[12:14]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um einn afmarkaðan þátt málsins en fjalla um aðra þætti síðar í ræðu minni. Mig langar að spyrja um málefni Sólheima. Mér finnst það prófsteinn á það hvernig yfirfærslan mun ganga hvernig Sólheimum reiðir af úr þessu. Þar búa yfir 40 fatlaðir einstaklingar og una hag sínum vel en hins vegar hefur framtíð Sólheima einhverra hluta vegna, sem ég ætla ekki að freista að rekja hér, verið sveipuð óvissu. Íbúar Sólheima eru ekki með samning við ríkisvaldið og hafa verið það lengi. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki sé ærið tilefni að nýta tímamótin núna um áramótin, með yfirfærslunni, til þess að tryggja framtíð Sólheima. Að hæstv. ráðherra beiti sér fyrir því að gerður verði þríhliða þjónustusamningur milli sveitarfélagsins, ríkisvaldsins, og Sólheima, (Forseti hringir.) eða tryggja með einhverjum hætti framtíð þessa stórmerkilega samfélags.