139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 87/2009 um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn.

155. mál
[17:27]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Vísast er það rétt sem hv. þingmaður sagði áðan að við erum ekki algjörlega sammála um framtíðarmúsíkina í þeim hljómkviðum sem þarf hugsanlega að leika vegna samstarfs okkar og tengsla við Evrópusambandið. Það kann líka að vera að það sé rétt hjá hv. þingmanni að við nýtum ekki fullkomlega þau tækifæri sem hugsanlega eru til til þess að hafa áhrif á þau mál sem hingað berast með bylgjum Evrópusambandsins.

Af því tilefni vil ég rifja upp að ég átti á sínum tíma sæti í svokallaðri Evrópunefnd þáverandi forsætisráðherra ásamt Birni Bjarnasyni sem gegndi margvíslegum ráðherraembættum í sinni tíð. Við urðum sammála um það þá og þeir sem í nefndinni sátu að hugsanlega væri hægt að standa betur að háttsemi okkar og aðgerðum innan EES-samningsins en menn gerðu. Við vorum t.d. sammála um að það væri mögulegt að taka upp þá leið sem Norðmenn hafa farið með mjög öflugum hætti á undanförnum árum að hafa sérstaka fulltrúa Alþingis við Evrópuþingið sem gætu fylgst með málum og haft áhrif á gang þeirra þar. Sömuleiðis var rætt, ég man ekki alveg hvort það varð að lokum hluti af þeim tillögum sem nefndin var þrátt fyrir allt sammála um, hvort þingflokkarnir, sem eiga sæti á hinu háa Alþingi og hafa allir góð tengsl við systurflokka sína og sambönd þeirra við Evrópuþingið, færu fram á það sem menn könnuðu óformlega að væri mögulegt að hafa fulltrúa sína með a.m.k. seturétt í þeim þingflokkum. Á þeim vettvangi væri hugsanlega hægt fyrir Íslendinga að hafa áhrif í gegnum mismunandi flokkagrúppur sínar á Evrópuþingið. Ég tel reyndar að eftir því sem tímanum hefur undið fram og breytingar hafa orðið innan Evrópusambandsins sé þetta kostur sem menn eigi að skoða mjög vel á meðan ekki er búið að samþykkja að ganga inn í Evrópusambandið. Það hafa orðið breytingar sem hafa dregið úr möguleikum Íslendinga til að hafa áhrif á það sem kemur frá Evrópusambandinu.

Á þeim tíma þegar við gerðumst aðilar að EES-samningnum fyrir rösklega 15 árum háttaði svo til innan Evrópusambandsins að framkvæmdastjórnin hafði langmest áhrif á allar gerðir og tilskipanir. Af hálfu okkar sem tókum þátt í því af EFTA-ríkjunum að búa til EES-samninginn var gert ráð fyrir því að við hefðum ákveðna aðkomu á þessum fyrstu stigum, þ.e. á vettvangi eða í tengslum við framkvæmdastjórnina til þess að koma a.m.k. sjónarmiðum okkar á framfæri.

Síðan hafa mál gjörbreyst. Evrópuþingið hefur fengið miklu meiri völd en áður. Það var ekki gert ráð fyrir því þegar við vorum að semja um þau lítilvægu áhrif sem við kunnum að hafa á þessar gerðir á þeim tíma. Þetta þýðir einfaldlega að þróunin hnígur öll að því að vilji þingsins, þar sem við höfum enga fulltrúa og höfum í reynd enga möguleika á að koma okkar sjónarmiðum á framfæri, er orðinn miklu ríkari og mótar í meira mæli en áður endanlega niðurstöðu. Það eru mörg dæmi og verða æ fleiri um að mál sem koma í gegnum framkvæmdastjórn og ráðherraráðið til þingsins gjörbreytist í meðförum þingsins.

Menn vinna gegn lýðræðishallanum sem menn töluðu um á sínum tíma með því að færa meiri völd í hendur Evrópuþinginu. Það dregur hins vegar úr möguleikum okkar til að hafa áhrif og eykur þess vegna lýðræðishallann gagnvart okkur Íslendingum og Norðmönnum. Þetta vildi ég nú segja til að taka að vissu leyti undir með hv. þingmanni. Mér finnst sjálfsagt að skoða allar leiðir til að efla hin formlegu eða óformlegu ítök okkar sem stöndum utan sambandsins. Ég er auðvitað þeirrar skoðunar að best væri fyrir okkur að ganga í sambandið og því fyrr því betra. Þar hefðum við alla vega rödd og gætum meira að segja látið hana hljóma hátt og jafnvel stöðvað mál. Nú eru möguleikar okkar til þess ákaflega litlir.

Hv. þingmaður sagði réttilega að sú innleiðing sem við ræðum eykur útgjöld ríkissjóðs á næstu tveimur árum um samtals 140 milljónir. Þó vil ég árétta það alveg sérstaklega að hér er um að ræða kostnað vegna lagasetningar um stjórn vatnamála í heild sinni en ekki einungis vegna þeirrar tilskipunar sem er til umræðu. Svo vil ég náttúrlega taka fram að það var tekin ákvörðun um það, ekki í tíð þessarar ríkisstjórnar, ekki hinnar fyrri heldur þeirrar sem kom til valda 2007, að menn skyldu ráðast í að breyta hér löggjöf til þess að innleiða vatnatilskipunina. Það var gert af ríkisstjórn Geirs H. Haardes. Ég kom að því vegna þess að ég var iðnaðarráðherra í þeirri ríkisstjórn og var m.a. samkomulag um að beita vatnatilskipuninni til þess að leiða til lykta ákveðnar deilur sem hér höfðu risið um vatn og hvernig með það skyldi fara í löggjöf.