139. löggjafarþing — 39. fundur,  30. nóv. 2010.

störf þingsins.

[14:27]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Í dag er merkisdagur sem ég tel rétt að minna þingheim á, það er 30. nóvember 2010, dagurinn sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn átti að fara frá Íslandi miðað við upprunalegan samning fyrrum ríkisstjórnar og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur, með dyggum stuðningi ríkisstjórnar Íslands, valdið óbætanlegu tjóni á íslensku samfélagi og hagkerfi, tjóni sem hefði ekki þurft að verða ef öðruvísi hefði verið haldið á spöðunum. Það hefði ekki þurft að framlengja samninginn við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn til ágúst 2011, það er alger óþarfi. Í stað þess sitjum við uppi með það að verið er að afskrifa tugmilljarða og milljarðaskuldir af auðmönnum en heimilin blæða. Það er stefna Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, það er stefna ríkisstjórnar Íslands. Þetta er stórhættuleg stefna. Og nú þegar við blasir að ekki er þingmeirihluti lengur fyrir afgreiðslu fjárlaga tel ég einfaldlega rétt að senda Alþjóðagjaldeyrissjóðinn heim. Hreyfingin hefur lagt fram tillögu til þingsályktunar sem verður lögð inn í þingið í dag um það og að ríkisstjórnin og forsvarsmenn hennar lýsi því yfir sem fyrst að þeir valdi ekki vandanum og segi af sér.