139. löggjafarþing — 40. fundur,  30. nóv. 2010.

mótgreiðsluframlag ríkisins í Lífeyrissjóð bænda.

[15:04]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Í fyrsta lagi vil ég láta það koma fram af minni hálfu að bændur hafa tekið mjög ábyrgt á þessum málum nú eins og endranær og verður manni þá hugsað til þess lykilhlutverks sem Bændasamtökin og landbúnaðurinn léku í gerð þjóðarsáttarinnar á sínum tíma. Ég tel að samskipti við bændur hafi verið til fyrirmyndar. Að sjálfsögðu eru þeir ekki ánægðir með niðurskurð á samdráttartímum frekar en nokkur annar aðili, en ég tel að menn hafi gert sitt besta til að leita sameiginlegra leiða til að finna skástu leiðirnar sem í boði voru.

Sú bókun sem ég gerði um málefni Lífeyrissjóðs bænda er tengd við gerð búnaðarlagasamningsins sem undirritaður var 20. október sl. Hún er að sjálfsögðu einhliða, en hún var kynnt bændum fyrir fram og þeir vissu hvað í vændum væri, sem og lífeyrissjóðurinn. Ég átti fund með stjórn lífeyrissjóðsins síðsumars eftir að ég hafði fengið frá þeim nefnt bréf.

Ég held að ástæða sé til að rifja þá upp að búvörusamningurinn var skertur með ákvörðun í desember 2008 án þess að neinar lagaheimildir stæðu til þess. Ég gekk í það á útmánuðum að reyna að ná samkomulagi um hvernig það yrði gert þannig að það stæði ekki bara járn í járn. Það tókst sem betur fer og það er síðan það samkomulag sem nú er verið að standa við og efna. Það er bændum mjög hagstætt núna eins og ég segi vegna þess að útfærslan er þannig að þeim mun lægri sem verðbólgan er, þeim mun meira af skerðingunni frá fyrri tíð kemur til baka. Þess vegna tel ég líka að bændur hafi valið hárréttan kost í þessum efnum, að tryggja það sem mikilvægast er sem er þessi stóri grundvöllur framleiðslunnar þar sem langstærstu fjárhæðirnar eru á ferðinni, framlög úr ríkissjóði upp á 10–11 milljarða kr.

Það er rangt að halda því fram að það sé þegar orðin 9% skerðing á kjörum bænda af þessum sökum. Tæplega 300 millj. kr. eingreiðsla til lífeyrissjóðsins dugir t.d. til greiðslu 4% mótframlags í tvö ár ef út í það er farið. Ef lífeyrissjóðurinn velur að nota þá leið til aðlögunar er auðvitað stallurinn mun minni sem menn þurfa þar að ráðast á. Fyrirkomulagið var hins vegar mjög óhefðbundið. Menn hljóta að velta því fyrir sér hversu líklegt væri að það stæðist til frambúðar (Forseti hringir.) að ríkið greiddi mótframlög fyrir hönd tiltekinnar atvinnugreinar inn í lífeyrissjóð hennar. Þess vegna held ég að þessum samskiptum hefði hvort sem er þurft einhvern veginn að koma í farveg, áfram verða búvörusamningar og búnaðarlagasamningar við lýði (Forseti hringir.) þannig að þar geta menn stillt af þær fjárhæðir sem þeir telja á hverjum tíma að hægt sé að leggja til landbúnaðarins.