139. löggjafarþing — 41. fundur,  30. nóv. 2010.

tekjuskattur.

300. mál
[18:53]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Vegna þeirrar gagnrýni sem fram kemur af hálfu þingmanna Sjálfstæðisflokksins vil ég bara segja að það er áreiðanlega við mig að sakast í þessu máli. Þegar við ræddum þetta fyrr í dag átti ég satt að segja von á því að málið yrði komið fyrr á dagskrána en raun ber vitni. Það er líka við mig að sakast að hafa þá ekki upplýst það þegar komið var fram á kvöldið að fjármálaráðherra yrði fjarverandi og umhverfisráðherra mundi mæla fyrir þessu máli í hans fjarveru. Ég vona að það komi ekki að sök við efnislega umræðu málsins. Ég hygg að umhverfisráðherra muni geta gert grein fyrir frumvarpinu eins og henni er lagið.

Eins og hér hefur líka komið fram er um að ræða stjórnarfrumvarp sem er flutt á ábyrgð ríkisstjórnarinnar þannig að ég vona að þessi umræða geti farið fram eins og við ræddum um. En ég tek að sjálfsögðu þá sök á mig að hafa ekki gert grein fyrir því með skilmerkilegum hætti að þetta fyrirkomulag yrði viðhaft þar sem umræðan hefst þegar liðið er svona á daginn.