139. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2010.

skattar og gjöld.

313. mál
[15:50]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég vona að það fari vel í hv. þingmenn að taka nú upp léttara hjal og ræða hér um breyting á ýmsum lagaákvæðum um skatta og gjöld. Ég ætla sem sagt að mæla hér fyrir frumvarpi til laga um breyting á ýmsum lagaákvæðum sem að þessu snúa. Þetta er 313. mál þessa þings á þskj. 380.

Um er að ræða breytingar á mörgum lögum og af margvíslegu tilefni. Það má í grófum dráttum skipta þessum breytingum í sex meginkafla sem er að finna í bandormi þessum sem gengur undir vinnuheitinu bandormur II eða góði bandormurinn.

Í fyrsta lagi eru breytingar sem tengjast tilflutningi á málefnum fatlaðra til sveitarfélaganna, allmiklar ráðstafanir í tekjulegu tilliti sem gera þarf vegna þess. Í öðru lagi eru breytingar sem varða rýmkun á þeim skattalegu úrræðum sem fyrirtæki geta nýtt sér í dag, annars vegar á skattalegri meðferð við eftirgjöf skulda og hins vegar heimild til greiðsluuppgjörs á gjaldföllnum skattskuldum í því skyni að auðvelda fjármálastofnunum og öðrum kröfuhöfum fjárhagslega endurskipulagningu lífvænlegra atvinnufyrirtækja. Í þriðja lagi eru tillögur að breytingum á lögum um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki. Í fjórða lagi er tillaga um framlengingu á gildandi bráðabirgðaákvæði í lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða sem felur það í sér að vikmörk milli eignarliða og framtíðarskuldbindinga lífeyrissjóða verði áfram 15% í stað 10%, þ.e. út árið 2010. Í fimmta lagi eru lagðar til breytingar á heimildum skattrannsóknarstjóra í því skyni að einfalda og flýta fyrir málsmeðferð gagnvart þeim aðilum sem eru til rannsóknar. Að lokum eru í frumvarpinu ýmsar minni en þó mikilvægar breytingar, m.a. vegna tilkomu nýrra umhverfisvænna orkugjafa eins og metans og mun ég nú gera nánari grein fyrir hverjum flokki fyrir sig á eftir.

Í fyrsta lagi um tekjuskatt ríkisins og tekjustofna sveitarfélaga. Í samkomulagi ríkis og sveitarfélaga um fjárhagsramma vegna tilfærslu þjónustu við fatlaða er gert ráð fyrir því að útsvarshlutfall sveitarfélaga verði hækkað um 1,2% gegn samsvarandi lækkun á tekjuskattshlutfalli ríkisins. Samkvæmt samkomulaginu færist fagleg og fjárhagsleg ábyrgð á framkvæmd þjónustu við fatlaða frá ríki til sveitarfélaga og miðar samkomulagið að því að þessi yfirfærsla eigi sér stað 1. janúar nk.

Flutningur málefna fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga hefur lengi verið til umræðu. Árið 1996 samþykkti Alþingi að fela þáverandi félagsmálaráðherra að undirbúa yfirfærslu á þjónustu við fatlaða frá ríki til sveitarfélaga. Í kjölfarið skipaði félagsmálaráðherra nefndir til að undirbúa málið en samkomulag tókst ekki um yfirfærsluna og var verkefnið lagt til hliðar á vordögum árið 2000.

Á samráðsfundi ríkis og sveitarfélaga árið 2007 var ákveðið að hefja formlegar viðræður að nýju og í framhaldi af því var skipuð verkefnastjórn til að fjalla um breytingar á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga á sviði velferðarmála. Var verkefnastjórninni jafnframt falið að stýra vinnu tveggja nefnda sem fjallað hafa um verkaskiptingu á sviði málefna fatlaðra annars vegar og hins vegar á sviði þjónustu við aldraða. Hinn 13. mars árið 2009 var undirrituð viljayfirlýsing milli ríkis og sveitarfélaga um tilfærslu þjónustu við fatlaða frá ríki til sveitarfélaga. Meginmarkmið hennar er að stuðla að samþættingu félagslegrar þjónustu við íbúa sveitarfélaganna og þar með að heildstæðari og um leið bættri þjónustu við einstaklinga sem þurfa á slíkri þjónustu að halda. Þykja sveitarfélögin að mörgu leyti betur í stakk búin en ríkið til að laga félagslega þjónustu að þörfum notenda með hliðsjón af ólíkum aðstæðum fólks og vegna þeirrar nálægðar sem þar ríkir. Í viðauka 2 við fyrrgreinda viljayfirlýsingu kemur fram að tekjustofnar sveitarfélaga verði hækkaðir til að standa straum af kostnaði við þau verkefni sem sveitarfélögin taka við og að endanlegar tillögur um fjármögnun verði unnar í tengslum við endurskoðun á tekjustofnum sveitarfélaga.

Ríkisstjórn Íslands og Samband íslenskra sveitarfélaga undirrituðu síðan þann 6. júlí sl. samkomulag um fjárhagslegar forsendur fyrir flutningi málefna fatlaðra til sveitarfélaga. Markmið samkomulagsins er að færa ábyrgð á fjármögnun þjónustunnar frá ríki til sveitarfélaga og tryggja sveitarfélögum sanngjarnan fjárhagsramma. Í samkomulaginu kemur fram að útsvarshlutfall sveitarfélaga verði hækkað um 1,2 prósentustig gegn samsvarandi lækkun á tekjuskattshlutfalli ríkisins. Hækkun útsvarstekna hjá sveitarfélögunum er áætluð um 10 milljarðar kr. vegna þessarar breytingar á útsvarshlutfallinu. Tekjur ríkissjóðs lækka jafnmikið og er þá aukinn hlutur ríkissjóðs í greiðslu útsvars í formi persónuafsláttar meðtalinn.

Af fyrrgreindum 1,2 prósentustigum renna 0,95 prósentustig til sérdeildar Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, en 0,25 prósentustig beint til sveitarfélaganna og eru þau bundin af því fram til ársins 2014 að ráðstafa þeim fjármunum til þjónustu við fatlaða innan viðkomandi þjónustusvæða. Auk þess verði framlög af fjárlögum á næstu árum, m.a. vegna nýs fyrirkomulags þjónustu sem nefnist notendastýrð persónuleg aðstoð og vegna biðlista eftir þjónustu. Skulu framlög af fjárlögum renna til sérstakrar deildar Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga vegna þjónustu við fatlaða. Sameiginlegt mat á faglegum og fjárhagslegum árangri yfirfærslunnar fer fram árið 2014, en samhliða endurmatinu er stefnt að því að útsvarshlutfall vegna þjónustu við fatlaða verði endurskoðað og að framlög af fjárlögum falli niður þannig að þjónustan verði alfarið fjármögnuð með útsvari.

Þá eru næst breytingar á skattalegri meðferð á eftirgjöf skulda lögaðila. Fyrr á þessu ári var samþykkt sem bráðabirgðaákvæði við tekjuskattslögin tiltekinn afsláttur af skattskyldu á eftirgjöf skulda hjá lögaðilum og þeim mönnum sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi. Í ákvæðinu fólst heimild til að tekjufæra einungis 50% af fengnum eftirstöðvum af eftirgjöf skulda vegna tekjuáranna 2009–2011, allt að samtals 50 millj. kr. og 75% af eftirgjöf umfram samtals 50 millj. kr. á framangreindu tímabili. Ákvæðið fól einnig í sér heimild til að fyrna eignir sérstaklega á móti eftirgjöfinni og heimild til að færa eftirgjöf skulda sem þannig er metin til tekna með jöfnum fjárhæðum í skattframtölum næstu þriggja ára.

Nokkur gagnrýni hefur komið fram á þetta úrræði í þá veru að það hamli í ákveðnum tilvikum fjárhagslegri endurskipulagningu lífvænlegra fyrirtækja vegna þeirrar tekjuskattsskuldbindingar sem myndast við eftirgjöfina. Í ljósi þess er lögð til breyting á ákvæðinu í átt til frekari rýmkunar, í raun má segja verulegrar rýmkunar, þannig að heimilt verði að færa á milli tekjuáranna 2010 til og með 2014 þann hluta eftirgjafarinnar sem er umfram yfirfæranleg rekstrartöp og möguleg rekstrartöp á tímabilinu, fyrningar og niðurfærslu miðað við rekstrarniðurstöðu þessara ára. Það er þó skilyrði að allar eignir hafi verið fyrndar að fullu að teknu tilliti til tekjuskattslaga og að mögulegar hámarksniðurfærslur á viðskiptakröfum og vörubirgðum hafi verið nýttar. Einnig er sett það skilyrði að arði sé ekki úthlutað vegna tekjuáranna 2010–2014 og að ekki sé um að ræða samsköttun, sameiningu eða skiptingu á sama tímabili. Að loknu þessu fimm ára tímabili, þ.e. í árslok 2014, er heimilt að færa þann hluta eftirgjafarinnar sem er umfram 500 millj. kr. til tekna með jöfnum fjárhæðum á tekjuárunum 2015 til og með 2019, en sé eftirgjöf þannig metin 500 millj. kr. eða lægri fellur hún niður. Þannig verður til eins konar frítekjumark við 500 millj kr. Það skal þó tekið fram að eftirgefnar skuldir sem á einhvern hátt tengjast refsiverðri háttsemi skattaðila skal tekjufæra án frádráttar.

Þá er komið að greiðsluuppgjöri á gjaldföllnum skattskuldum. Í fyrravor samþykkti Alþingi lög um greiðsluuppgjör á opinberum gjöldum lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri en úrræðunum, sem í þeim fólust, var ætlað að vera hvati fyrir aðila í atvinnurekstri til að koma vanskilum á opinberum gjöldum í skil. Um er að ræða einskiptisaðgerð þar sem umsækjandi fær heimild til að greiða eldri vanskil með útgáfu vaxtalauss en verðtryggðs skuldabréfs til fimm ára gegn því að opinber gjöld sem gjaldfalla á tímabilinu 1. janúar 2010 til 1. júlí 2011 séu í skilum. Þá verða ekki lagðir dráttarvextir á hina ógreiddu skattkröfu sem varð til fyrir 1. janúar 2010 fram til 1. júlí 2011.

Þetta úrræði hefur mælst mjög vel fyrir og þegar hafa á fjórða hundrað aðilar sótt um greiðsluuppgjör. Þar af hafa verið greiddar um 500 millj. kr. til þess að uppfylla skilyrði laganna við umsókn og um 1.500 millj. kr. af ógreiddum opinberum gjöldum verða settar á skuldabréf til næstu fimm ára. Gildandi úrræði hvetur einnig til skila á skattframtölum og dregur þar með úr áætlunum.

Til að tryggja enn frekar aðkomu stjórnvalda til aðstoðar rekstraraðilum í skuldavanda og ná jafnframt til þeirra sem hættir eru rekstri vegna efnahagsástandsins er í frumvarpi þessu lagt til að rýmka þau skilyrði sem eru í gildandi lögum. Meðal annars er lagt til að tollstjóra verði veitt heimild til að fella niður hluta af tekjuskatti lögaðila sem fallið hefur í gjalddaga fyrir 1. janúar 2010 að uppfylltum nánar tilgreindum skilyrðum. Heimildin á jafnt við um rekstraraðila sem sótt hafa um sértæka greiðsluaðlögun til fjármálastofnana og þá sem ekki hafa gert það. Sú krafa er gerð að umsækjanda sem fengið hefur sértæka skuldaaðlögun afgreidda sé skylt að leggja fram öll þau gögn er varðar rekstur fyrirtækisins, þar á meðal þær forsendur er liggja að baki niðurfellingu krafna hjá fjármálastofnunum. Gera verður þá kröfu að vangoldinn tekjuskattur sé ekki til kominn vegna endurákvörðunar á grundvelli skattsvika viðkomandi. Þá ber við mat á því hvort hagsmunum ríkissjóðs sé betur borgið með niðurfellingu tekjuskatts að hluta að líta til þess hvort gripið hafi verið til nauðsynlegra ráðstafana til að tryggja rekstur fyrirtækisins til framtíðar. Jafnframt er lagt til í frumvarpinu að fyrsti gjalddagi skuldabréfsins sem gefið verður út verði 1. júlí 2012 í stað 1. október 2011 þannig að einnig að þessu leyti er gerð breyting samkvæmt frumvarpinu til ívilnunar eða rýmkunar fyrir þá sem njóta.

Þriðji meginkafli frumvarpsins fjallar um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki. Lög um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki öðluðust gildi í ársbyrjun 2010. Gildandi lög innihalda annars vegar beinar skattalegar ívilnanir til nýsköpunarfyrirtækjanna sjálfra og hins vegar ívilnanir í formi hlutabréfaafsláttar, bæði til einstaklinga og lögaðila, vegna kaupa á hlutabréfum í nýsköpunarfyrirtækjum. Þessi úrræði eiga samkvæmt gildandi lögum að koma til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda árið 2011. Í þessu frumvarpi er að finna breytingar á báðum þáttum stuðningsins.

Í fyrsta lagi eru lagðar til frekari skattalegar ívilnanir til nýsköpunarfyrirtækja sjálfra en nú er. Þær eru helstar að heimild til frádráttar frá álögðum tekjuskatti nýsköpunarfyrirtækja hækki úr 15% í 20%, að hámark á rannsóknar- og þróunarkostnaði til almennrar viðmiðunar á frádrætti hækki úr 50 millj. kr. í 100 millj. kr., að hámark á rannsóknar- og þróunarkostnaði til viðmiðunar frádrætti hækki úr 75 millj. kr. í 150 millj. kr. þegar um aðkeypta rannsóknar- og þróunarþjónustu er að ræða frá ótengdu fyrirtæki, háskóla eða rannsóknarstofnun, að fallið verði frá því að við ákvörðun á skattalegu tapi samkvæmt lögum nr. 152/2009, um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, skuli einungis líta til rekstrartaps viðkomandi nýsköpunarfyrirtækis frá og með því rekstrarári sem verkefni í eigu þess hlaut staðfestingu vegna skattfrádráttar.

Í öðru lagi eru breytingar á hlutabréfaafslættinum og öðrum þáttum laganna sem óumflýjanlegt er að leggja til í kjölfar samskipta við Eftirlitsstofnun EFTA (ESA), en þær eru að hlutabréfaafsláttur til handa einstaklingum og lögaðilum vegna fjárfestinga í hlutabréfum í nýsköpunarfyrirtækjum verði felldur brott þar sem hann samrýmist ekki reglum um ríkisaðstoð í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, að nýsköpunarverkefni hljóti staðfestingu af Rannís samkvæmt lögunum í stað nýsköpunarfyrirtækja eins og nú er, að rannsóknir og þróun verði skilgreind með sama hætti og gert er í leiðbeinandi reglum ESA um ríkisstyrki vegna rannsókna, þróunar og nýsköpunar frá 7. febrúar 2007, að skýrlega sé kveðið á um það í lögum hvaða hámarksreglur gilda um samanlagða opinbera styrki til verkefna á sviði rannsókna, þróunar og nýsköpunar eins og áskilið er í sömu leiðbeiningarreglum ESA.

Aðdraganda þessara breytingartillagna má rekja til þess að í almennum athugasemdum við frumvarp það sem varð að lögum um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki kemur fram að með því sé kveðið á um tiltekið form ríkisaðstoðar við nýsköpunarfyrirtæki og því beri með vísan til samningsins um Evrópska efnahagssvæðið að tilkynna ESA um áformaða ríkisaðstoð. Jafnframt er áréttað að í samræmi við málsmeðferðarreglur ESA sé ekki unnt að hefja veitingu ríkisaðstoðarinnar fyrr en að fenginni staðfestingu stofnunarinnar á lögmæti ríkisaðstoðarinnar. Sem fyrr segir öðluðust lög um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki gildi í ársbyrjun 2010 en ekki tókst að tilkynna ESA um frumvarpið áður en Alþingi samþykkti það. Staðfesting ESA lá því ekki fyrir þegar lögin tóku gildi. ESA var tilkynnt með formlegum hætti um lögin í áföngum í júní og september 2010 og hefur stofnunin haft kerfið til skoðunar síðan þá.

Eftirlitsstofnun EFTA sendi íslenskum stjórnvöldum upplýsingabeiðni í nóvember 2010 vegna núgildandi laga þar sem látnar eru í ljós ýmsar athugasemdir við það ríkisaðstoðarkerfi sem í þeim felst. Í kjölfarið hafa átt sér stað samskipti við stofnunina þar sem fram hefur komið að skattafsláttur til einstaklinga og lögaðila muni líklega standa í vegi fyrir því að kerfið verði samþykkt sem lögmæt ríkisaðstoð, en samþykki ESA er sem fyrr segir forsenda þess að heimilt sé að hrinda kerfinu í framkvæmd við álagningu 2011.

Athugasemdir ESA lúta í fyrsta lagi að því að stofnunin telur að ýmsum skilgreiningum laganna sé ábótavant og ekki standist ákvæði EES-samningsins að útiloka opinber hlutafélög og önnur hlutafélög í eigu opinberra aðila frá gildissviði laganna. Slíkt feli í sér ólögmæta mismunun gagnvart hlutafélögum í opinberri eigu.

Í öðru lagi liggur fyrir sú afstaða ESA að ívilnunin sem felst í skattafslætti til lögaðila sem fjárfesta í nýsköpunarfyrirtækjum feli í sér sjálfstæða beina ríkisaðstoð til þessara lögaðila sem ólíklegt er að verði réttlætt á grundvelli undanþáguákvæða EES-samningsins.

Í þriðja lagi telur stofnunin að ekki sé unnt að setja þak á hinn óbeina stuðning til nýsköpunarfyrirtækja sem felst í því að nýsköpunarfyrirtæki verða álitlegri fjárfestingarkostur en önnur félög sökum skattafsláttarins. Af þeirri ástæðu verði erfitt að staðfesta skattafslátt vegna hlutafjárkaupa í nýsköpunarfyrirtækjum þótt hann taki einungis til einstaklinga.

Stjórnvöld hafa átt í viðræðum við Eftirlitsstofnun EFTA í því skyni að finna lausn á framangreindum atriðum. Ljóst er að ráða má bót á fyrstnefnda atriðinu, þ.e. að opinber fyrirtæki verði ekki útilokuð, með breytingu á lögunum. Sömuleiðis má endurbæta skilgreiningar og líta í því sambandi til leiðbeinandi reglna ESA, frá febrúar 2007, um ríkisaðstoð til rannsóknar-, þróunar- og nýsköpunarverkefna. Erfitt er að sjá að afslættir fyrir lögaðila sem fjárfesta í nýsköpunarfyrirtækjum muni verða samþykktir. Þriðja atriðið, afslættir fyrir einstaklinga sem fjárfesta í nýsköpunarfyrirtækjum, gæti fengist samþykkt en líkur eru á því að ESA verði að taka lögin í heild til ítarlegrar skoðunar, eða formlegrar rannsóknar, haldi íslenska ríkið fast við að sá þáttur komi til framkvæmda við álagningu árið 2011.

Verði málið sett í formlega rannsókn mun endanleg niðurstaða ekki liggja fyrir fyrr en 6–10 mánuðum síðar. Niðurstaða slíkrar rannsóknar gæti orðið neikvæð og fari svo yrði íslenskum stjórnvöldum skylt að endurkrefja veitta ríkisaðstoð.

Sú leið er fær að draga fyrrnefnda tilkynningu um ríkisaðstoð til baka og tilkynna nýtt kerfi til ESA sem einungis innihéldi frádrátt fyrir nýsköpunarfyrirtæki vegna skilgreindra nýsköpunarverkefna. Slíkt kerfi gæti mögulega komið til framkvæmda við álagningu ársins 2011 að fengnu samþykki ESA. Með vísan til þess að þannig fram sett ríkisaðstoðarkerfi væri mjög í anda þeirra leiðbeininga sem ESA hefur sett fram gæti samþykki ESA legið fyrir innan tiltölulega skamms tíma.

Rannís hefur nú þegar móttekið um 100 umsóknir frá nýsköpunarfyrirtækjum sem óska staðfestingar samkvæmt lögunum og hefur ekki verið hægt að afgreiða umsóknir vegna þess að samþykki ESA liggur ekki fyrir. Verði lögunum breytt til samræmis við kröfur ESA má reikna með því að unnt verði að afgreiða þessar umsóknir lítt breyttar. Því eru þessar breytingar lagðar til, virðulegi forseti, til að reyna að tryggja að hægt verði að haga framkvæmdinni þannig og að árið 2011 fari ekki forgörðum í þessu sambandi.

Þá næst að breytingum á lífeyrislögum. Í kjölfar efnahagshrunsins í lok árs 2008 var lögfest bráðabirgðaákvæði þess efnis að vikmörk milli eignarliða og framtíðarskuldbindinga lífeyrissjóða verði 15% í stað 10% fyrir árið 2008 sem er frávik frá almennri reglu laganna. Þetta frávik var síðan framlengt fyrir árið 2009. Í því frumvarpi sem hér liggur fyrir er lagt til að hið sama gildi um árið 2010, þ.e. að vikmörk milli eignarliða og framtíðarskuldbindinga lífeyrissjóða verði áfram 15% í stað 10%. Hér er um að ræða heimildarákvæði sem stjórnir lífeyrissjóða geta nýtt sér en líkt og á síðasta ári er útlit fyrir að einhverjir sjóðir verði með neikvæða stöðu yfir 10% á árinu 2010.

Þá er lagt til að gerðar verði sömu kröfur til menntunar og kunnáttu þeirra sem fara með sjóðstýringu lífeyrissjóða og gerðar eru til sjóðstjóra verðbréfasjóðanna, þ.e. að hafa staðist próf í verðbréfaviðskiptum.

Í frumvarpinu er einnig að finna tillögu að breytingum á heimildum skattrannsóknarstjóra í því skyni að einfalda og flýta fyrir málsmeðferð gagnvart þeim aðilum sem eru til rannsóknar. Í þeim felst m.a. að skattrannsóknarstjóri ríkisins geti leitað úrskurðar héraðsdóms um leit og haldlagningu gagna á einkaheimilum eða á öðrum þeim stöðum sem heimildir skattalaga taka ekki til, en samkvæmt gildandi lögum hefur skattrannsóknarstjóri ríkisins einungis heimild til leitar og haldlagningar gagna vegna rannsókna án undangengins úrskurðar héraðsdóms á starfsstöðvum og í birgðageymslum framtalsskyldra aðila.

Við rannsóknaraðgerðir hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins skal gæta að ákvæðum laga um meðferð sakamála eftir því sem við getur átt, einkum varðandi réttarstöðu grunaðra manna á rannsóknarstigi. Þótt leiða megi að því líkur að á grundvelli þessa ákvæðis hafi skattrannsóknarstjóri ríkisins nú þegar heimild til að fara með úrskurðarbeiðni fyrir héraðsdóm hefur myndast sú venjubundna framkvæmd að mál séu kærð til lögreglu sé talin þörf á leit á heimilum eða á öðrum stöðum en starfsstöðvum eða birgðageymslum framtalsskyldra aðila, til að mynda sökum þess að starfsstöð er í reynd á heimili eða að rökstuddur grunur er um að gögn er varða ætluð brot sé þar að finna. Hefur lögreglan þá farið fram með úrskurðarbeiðni fyrir héraðsdómi á grundvelli kæru frá skattrannsóknarstjóra ríkisins og lögregla hefur í framhaldinu framkvæmt leit og haldlagningu í samráði við skattrannsóknarstjóra. Í kjölfar leitar hefur málinu á ný verið vísað til skattrannsóknarstjóra ríkisins til áframhaldandi rannsóknar.

Með þessu fyrirkomulagi er máli í reynd vísað til opinberrar rannsóknar til þess eins að unnt sé að leita úrskurðar um leit og haldlagningu. Hefur þetta leitt til óhagræðis með því að máli er þá vísað til opinberrar rannsóknar á frumstigi og því fyrirliggjandi að máli þurfi að vísa á ný til áframhaldandi rannsóknar hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins. Þetta hefur leitt til óhagræðis með því að forræði rannsóknarinnar og aðgerðarinnar sjálfrar hefur þótt óljóst af hálfu þess sem hún beinist gegn auk þess sem þetta fyrirkomulag hefur leitt til lengri málsmeðferðartíma en ella eins og augljóst er.

Með því að tekin séu af tvímæli um það að skattrannsóknarstjóri ríkisins geti leitað eftir úrskurði héraðsdóms um leit og haldlagningu er gert ráð fyrir að meðferð máls verði skilvirkari, leiði til aukins hagræðis og einföldunar fyrir rannsóknaraðila jafnt og þá aðila sem aðgerðin beinist gegn.

Að lokum eru í frumvarpinu lagðar til ýmsar minni en þó mikilvægar breytingar sem rétt er að nefna. Fyrst er að nefna vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. Lagt er til að heimilt verði að endurgreiða vörugjöld allt að 100 þús. kr. vegna ökutækja sem ganga fyrir bensíni eða dísilolíu en breytt er til þess að ganga fyrir metani. Er þessari tillögu ætlað að flýta fyrir þeirri þróun að metan verði notað í daglegum samgöngum á Íslandi. Með því að fjölga hratt notendum metans er vonast til þess að söluaðilar og framleiðendur metans sjái sér aukinn hag í því að fjölga áfyllingarstöðvum um allt land. Sú þróun gæti orðið til þess að þeir sem endurnýja ökutæki sín sjái raunhæfan kost í því að kaupa sér ökutæki sem gengur fyrir metani í stað hefðbundins jarðefnaeldsneytis. Jafnframt er vonast til að tillagan verði til þess að fyrr en ella verði metani í auknu mæli safnað úr lífrænum úrgangi til nota á ökutæki með þeim jákvæðu umhverfislegu áhrifum sem af því hljótast. Reiknað er með að tillagan komi til með að kosta ríkissjóð 100 millj. kr. yfir tveggja ára tímabil.

Önnur breytingartillaga snýr að óinnleystum gengishagnaði. Samkvæmt gildandi lögum myndar óinnleystur gengishagnaður af innlánsreikningum skattskyldar tekjur hjá rétthafa. Í frumvarpinu er lögð til sú breyting að tekjufærsla gengishagnaðar á innlánsreikningum og kröfum í erlendri mynt eigi sér ekki stað fyrr en við úttekt af reikningum og þannig horfið frá því að telja áfallinn óinnleystan gengishagnað af innlánsreikningum til tekna.

Í þriðja lagi eru breytingar á stimpilgjaldi. Í gildandi lögum er að finna tímabundnar undanþágur frá greiðslu stimpilgjalds þegar skilmálum fasteignaveðskuldabréfa er breytt eða ný veðskuldabréf eru gefin út til uppgreiðslu vanskila. Í frumvarpinu er lagt til að þessar undanþágur verði framlengdar um eitt ár, þ.e. til ársloka 2011. Þessi framlenging þykir nauðsynleg í ljósi þeirra greiðsluerfiðleika sem enn blasa við mörgum heimilum vegna hækkunar bíla- og fasteignalána sem rekja má til lækkunar krónunnar og verðbólguáhrifa.

Í fjórða lagi er lögð til breyting á erfðafjárskatti af söluhagnaði íbúðarhúsnæðis. Lagt er til að meðferð á söluhagnaði af íbúðarhúsnæði manns verði sú sama hvort sem salan fer fram út úr dánarbúi eða af erfingjum sjálfum. Samkvæmt gildandi lögum er reglan sú að hafi íbúðarhúsnæði arfláta verið selt áður en dánarbúinu er slitið er söluhagnaðurinn skattlagður eins og um lögaðila sé að ræða en ekki erfingja.

Í fimmta lagi er breytingartillaga sem snýr að vaxtabótum. Samkvæmt gildandi lögum mynda gjaldfallin vaxtagjöld rétt til vaxtabóta óháð því hvort greiðslan hefur farið fram. Þetta hefur leitt til þess, m.a. í tilviki frystinga á afborgunum og vöxtum eða þá sökum þess að menn hafa með öllu hætt að borga af slíkum lánum, að vextirnir hafa í einhverjum tilvikum myndað rétt til vaxtabóta þótt þeir hafi alls ekki verið greiddir. Þá hefur einnig ríkt ákveðið ósamræmi milli lánastofnana varðandi það hvort réttur til vaxtabóta myndast í slíkum tilvikum. Því er lagt til að til vaxtagjalda sem mynda stofn til vaxtabóta teljist einungis greiddir vextir og verðbætur á afborganir og vexti en ekki gjaldfallnir. Í frumvarpinu er reyndar reiknað með að þessi breyting komi til framkvæmda strax við álagningu opinberra gjalda á árinu 2011, en komið hefur í ljós að á því eru vandkvæði af tæknilegum ástæðum. Ég mun því leyfa mér að leggja þá tillögu fyrir hv. efnahags- og skattanefnd að breytingin komi fyrst til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda árið 2012.

Í sjötta lagi er lögð til breyting á skattlagningu einstaklinga með búsetu erlendis. Gert er ráð fyrir að einstaklingar sem búsettir eru erlendis eigi rétt á að verða skattlagðir með sama hætti og einstaklingar búsettir hér á landi stafi meiri hluti tekna þeirra frá Íslandi. Samkvæmt túlkunum Evrópudómstólsins á reglum ESB-réttar um frjálsa för launþega, sem eiga sér hliðstæðu í EES-samningnum, getur það komið í hlut ríkis að veita einstaklingum í slíkri stöðu sama skattalega hagræði og veitt er aðilum með ótakmarkaða skattskyldu í ríkinu. Slíkir einstaklingar njóti yfirleitt ekki skattalegra ívilnana í búseturíki sínu af þeirri ástæðu að meiri hluti tekna þeirra er upprunninn og skattlagður erlendis.

Í sjöunda lagi er breytingartillagan sem snýr að dreifingu tekjufærslu samkvæmt 60. gr. tekjuskattslaga. Gert er ráð fyrir því að þeir sem miðað hafa tekjuuppgjör rekstrar við innborganir vegna seldrar þjónustu, í stað þess að miða við unna og bókfærða þjónustu, í þeim tilvikum sem vinnuþáttur hinnar seldu þjónustu er almennt yfir 70% verði heimilað að færa til tekna á þremur árum þá fjárhæð sem tekjufærslu hafði áður verið frestað á, í stað þess að færa frestunarfjárhæðina til tekna í einu lagi í skattframtali 2011.

Þá er loks tillaga til breytinga á dómsmálagjöldum sem ég vil gera grein fyrir. Gert er ráð fyrir fjölgun í gjaldaþrepum við greiðslu dómsmálagjalda og að bætt verði við tveimur nýjum gjaldaþrepum. Hæsta gjaldaþrepið í dag miðast við stefnufjárhæð eða áfrýjunarfjárhæð frá 30 millj. kr. og yfir. Er hér lagt til að gjaldaþrepið verði 30 millj. kr. að 90 millj. kr. og svo tvö ný stig, þ.e. frá 90 millj. kr. að 150 millj. kr. og svo frá 150 millj. kr. og af fjárhæð umfram þá fjárhæð. Áætlanir gera ráð fyrir að með þessum breytingum hækki dómsmálagjöld úr 15 millj. kr. á ári í 180 millj. kr. á ári og að tekjuauki fyrir ríkissjóð verði um 165 millj. kr. árlega sem gert er ráð fyrir að verði að fullu nýttur til að fjölga dómurum við Hæstarétt og héraðsdómstólana. Ljóst er að til kasta dómstólanna koma nú mál af allt annarri stærðargráðu en við eigum almennt að venjast og tekin hefur verið ákvörðun um að efla verulega dómstólana á báðum dómstigum og dómsmálagjöldin sem hér er verið að leggja drög að eiga að mæta þeim kostnaði.

Allra síðast er lögð til hækkun á gjöldum innheimtum af Fiskistofu hvað ekki hefur verið gert í allmörg ár. Gert er ráð fyrir því að gjöldin sem innheimt eru við útgáfu leyfa til veiða í atvinnuskyni, vegna eftirlits um borð í fiskiskipum og flutnings á veiðiheimildum milli skipa verði hækkuð til samræmis við verðlagshækkanir sem orðið hafa undanfarin ár, en gjöld þessi voru ákveðin á árunum 2000–2002 og hafa verið óbreytt frá þeim tíma. Verði frumvarpið að lögum er gert ráð fyrir að markaðar tekjur Fiskistofu hækki um tæpar 23 millj. kr.

Auk framangreindra ákvæða frumvarpsins eru í því nokkrar breytingar sem fyrst og fremst miða að bættri skattframkvæmd.

Samkvæmt áætlun fjármálaráðuneytis er gert ráð fyrir að tekjutap ríkissjóðs vegna breytinga á tekjuskattshlutfallinu nemi tæpum 10,2 milljörðum kr. Er það annars vegar vegna lækkunar tekjuskattshlutfallsins og hins vegar útsvarsgreiðslu ríkissjóðs til sveitarfélaga en sveitarfélögum er lögum samkvæmt tryggt útsvar af tekjuskattsskyldum tekjum með því að ríkissjóður greiðir að hluta eða að fullu útsvar þeirra sem hafa tekjur undir ákveðnum mörkum. Á móti er gert ráð fyrir að niður falli bein framlög í fjárlögum til starfrækslu málaflokksins sem nema um 10 milljörðum kr.

Verði frumvarpið óbreytt að lögum er reiknað með að vegna annarra breytinga en yfirfærslu á málefnum fatlaðra komi ekki til aukinna útgjalda fyrir ríkissjóð nema hvað reiknað er með um 100 millj. kr. kostnaði vegna endurgreiðslu á vörugjöldum.

Margt í frumvarpi þessu lýtur að lagfæringum tæknilegs eðlis og með þeim er að hluta til komið til móts við nokkrar af óskum Samtaka atvinnulífsins sem hafa verið í samstarfi við stjórnvöld um lagfæringar á ýmsum málum sem uppi hafa verið í þeim samskiptum. Vona ég að með þessu sé a.m.k. að einhverju leyti komið til móts við gagnrýni og óánægju sem sett hefur verið fram á nokkra liði, bæði tæknilegs og efnislegs eðlis, í skattamálum lögaðila, suma frá fyrri tíð og suma frá breytingum undangenginna tveggja ára.

Að þessu sögðu, virðulegi forseti, legg ég til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og skattanefndar og til 2. umr. að aflokinni þessari.