139. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2010.

skattar og gjöld.

313. mál
[16:23]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar unnið var að þessari lagasetningu á sínum tíma sögðust menn horfa svolítið til fyrirkomulagsins í Noregi þar sem er hið svokallaða „skatteFUNN“-kerfi sem styður við nýsköpunarfyrirtæki. Þar er ekki neitt gólf heldur er lykilatriðið í kerfinu einmitt þetta mat sem fer fram á verkefninu sjálfu, þannig að þröskuldurinn er náttúrlega fyrst og fremst sá að komast í gegnum matið hjá þeirri stofnun sem er sambærileg við Rannís í þessum lögum. Ég tel langeðlilegast að verkefnið sjálft sé metið, hvort það sé nýsköpunarverkefni, frekar en þeir peningar sem verið er að setja í þetta.

Þá vil ég líka benda á að frumkvöðlarnir leggja oft sjálfir mjög mikla vinnu á sig og eiga erfitt með að leggja fram kostnað fyrir þá launalausu vinnu sem þeir inna af hendi og þurfa einmitt fyrst og fremst á þessum stuðningi að halda þegar þeir eru að koma fyrirtækinu af stað.