139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

störf þingsins.

[14:16]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég er sammála því sem hér hefur verið sagt, auðvitað eigum við að reyna að horfa bjartsýn til framtíðarinnar. En svo koma tölur frá Hagstofu Íslands, [Hlátur í þingsal.] þær eru kalt mat á stöðu þjóðmálanna, og þá verð ég að játa að það slokknar svolítið á bjartsýnisneistanum sem ég hafði annars kveikt hjá mér.

Hagstofan sagði frá því í morgun hvernig landsframleiðslan hefði þróast milli 2. og 3. ársfjórðungs samanborið við 3. ársfjórðung í fyrra. Það verður að segja það eins og er, þrátt fyrir alla bjartsýnina, að þetta eru ekki mjög jákvæðar upplýsingar. Okkur er sagt frá því að áframhaldandi stöðnun muni ríkja í landinu. Það er lítils háttar aukning á landsframleiðslu milli 2. og 3. ársfjórðungs en þetta er heldur lakara ef við berum okkur saman við ársfjórðunginn í fyrra.

Það sem er síðan alvarlegt í þessu er að sá litli vöxtur sem er í landsframleiðslunni milli 2. og 3. ársfjórðungs helgast fyrst og fremst af aukinni einkaneyslu. Nú vitum við að skuldsett heimilin eru ekki mjög líkleg til að geta drifið áfram hagvöxt eða aukningu á landsframleiðslu í landinu, það er ekki þannig. Við verðum að stóla þar á aðra hluti, svo sem eins og vöxt í atvinnulífinu, svo sem eins og fjárfestingu. Þar er heldur betur dapurlegt yfir að líta. Fjárfestingin minnkar um 5,6% og fjárfesting atvinnuveganna dregst saman á milli 2. og 3. ársfjórðungs um 10%. Þetta stafar af ríkisstjórnarstefnunni, hinni svartsýnu bölmóðsríkisstjórnarstefnu sem hefur gert það að verkum að atvinnulífið hefur ekki mátt til að fjárfesta, má ekki fjárfesta, getur ekki fjárfest vegna þess að ríkisstjórnin er ýmist að reyna að koma í veg fyrir það með aðgerðum sínum eða með því að setja hlutina í óvissu (Forseti hringir.) með því að búa til pólitíska óvissu sem gerir það að verkum að við erum föst í sama farinu — (Gripið fram í.) og bjartsýnisljósið kviknar ekki.