139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

staða Íbúðalánasjóðs.

[15:47]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Það efast ekki margir um tilgang og nauðsyn Íbúðalánasjóðs á fasteignamarkaði hér á landi, en þó voru nú uppi efasemdarraddir um þann ágæta sjóð fyrir ekki svo mörgum árum. Málshefjandi, hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, spurði að því áðan í ræðu sinni hver kjarni vanda Íbúðalánasjóðs væri, eða velti því fyrir sér. Hvað með ranga efnahagsstjórn? Getur það verið kjarni þess vanda sem Íbúðalánasjóður er í í dag, er það hugsanlegt? Er vandinn ekki fólginn í því, rétt eins og við fjölluðum um hér áðan, reyndar undir öðrum dagskrárlið, um fjáraukalagafrumvarpið, að kjarni vanda Íbúðalánasjóðs er tapaðar kröfur, þ.e. 10.500 millj. kr. vegna skuldabréfakaupa og vaxtaskiptasamninga og fleira í þeim dúr sem töpuðust í bankahruninu og hins vegar kröfur sem hafa verið færðar á afskriftareikning upp á 4.500 millj. kr. Hvort tveggja má að stórum hluta rekja til rangrar efnahagsstefnu, rangrar pólitískrar stefnu sem hér var rekin á sínum tíma. Það er kjarni vanda Íbúðalánasjóðs eins og hann er í dag.

Ég velti því einnig fyrir mér, bæði í umræðunni um fjáraukalagafrumvarpið áðan og í þessari umræðu, að ég hef enn ekki heyrt tillögur eða hugmyndir sjálfstæðismanna í fjárlaganefnd. Allra síst kemur það fram á einu ræfilslegasta nefndaráliti sem ég hef séð í þingsölum, frá minni hluta fjárlaganefndar við fjáraukalagafrumvarpið. Þar er fjallað um Íbúðalánasjóð í heilum fjórum línum án þess að gerðar séu nokkrar tillögur til úrbóta, án þess að varpað sé fram nokkurri einustu tillögu um hvernig eigi að bregðast við. Það er þó gert af meiri hluta fjárlaganefndar hvað þetta varðar. Það kann að vera að það komi seint, það sé ekki nógu skýrt nákvæmlega hvernig það verður (Forseti hringir.) gert, en það er þó verið að gera tillögu til að rétta Íbúðalánasjóð við, gera hann starfhæfan og gera hann aðila í þeim aðgerðum sem verið er að grípa til varðandi skuldsett heimili í landinu.