139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

brunavarnir.

79. mál
[17:35]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Sem svar við síðustu spurningu hv. þingmanns, um leið og ég þakka henni fyrir andsvarið, þetta varðar það sem sett er hér fram sem breytingartillaga við 3. gr. og 16. gr. Eins og ég hef lesið úr nefndarálitinu varðandi þetta eru það, held ég, fyrst og fremst þessar greinar. Bið ég þá nefndarmenn sem þekkja þetta betur og eru á kafi ofan í þessu verki að leiðrétta það ef það eru fleiri greinar. Það eru þessar megingreinar þar sem mér sýnist vera fjallað um þetta atriði og ég ítreka það sem ég sagði áðan að ég er mjög sáttur við að þessar breytingartillögur verði dregnar til baka og fjallað betur um þær í umhverfisnefnd og við 3. umr. komi þetta betur fram.

Ég er ekki sammála því, virðulegi forseti, að ég sé að taka þátt í baráttu milli tveggja stofnana, það er ég ekki að gera. Ég get hins vegar sagt það, og þá rifjast upp fyrir mér fyrirspurnin sem hv. þingmaður vitnaði til, að það gerði það að verkum ásamt deilunni í sumar að maður þurfti að fara í gegnum öll þessi gögn og lúslesa þau í rauninni. Í mínum huga var það alveg kristaltært eftir þann lestur að þetta á að vera í því formi sem það hefur verið og það á ekki að vera deila um það milli aðila. Það er bara vegna þess að lagatextinn er óskýr og það er vitnað í greinargerðina þarna og það á að skýra. Þess vegna segi ég að umhverfisnefnd eigi að klára sitt góða verk með því að skýra þetta alveg hreint út. Ég er þeirrar skoðunar að fyrsta viðbragðið eigi að vera hjá slökkviliði viðkomandi flugvallar og að sjálfsögðu er það alltaf slökkvilið viðkomandi sveitarfélags sem kemur á staðinn og slökkviliðið er því betra sem það kemur fyrr. Ég treysti slökkviliði höfuðborgarsvæðisins mjög vel til að vera komið á tveimur, þremur, fjórum mínútum að loftfari sem hlekkst hefur á við lendingu eða í flugtaki hvað það varðar að vera komið til (Forseti hringir.) aðstoðar viðkomandi í fyrsta viðbragði.