139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

rannsóknarnefndir.

348. mál
[18:42]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil eins og aðrir sem hér hafa talað þakka fyrir þetta fróðlega og ítarlega plagg og tillögurnar sem hér er að finna um nýjan skilvirkan ramma um rannsóknarnefndir á vegum Alþingis.

Eins og komið hefur fram er frumvarpið unnið að beiðni forsætisnefndar í kjölfar skýrslu frá því í september 2009 um eftirlit Alþingis með framkvæmdarvaldinu. Forsætisnefnd fékk Bryndísi Hlöðversdóttur, sem var formaður nefndarinnar, til að semja frumvarpið. Ég vil vekja athygli á því að það hefur verið gott samráð við vinnslu frumvarpsins í forsætisnefnd milli þingflokka og góð samstaða um tillögurnar sem lagðar eru fram eins og kom reyndar fram í máli forseta, hv. þm. Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur, áðan. Niðurstaða þessa er að mínu mati vandað verk og heilsteypt sem ég tel unnt og reyndar mikilvægt að verði að lögum sem allra fyrst.

Ramminn sem lagt er upp með er sniðinn að danskri og norskri fyrirmynd, þó þannig að rannsóknarnefnd verði aðeins skipuð samkvæmt þessu frumvarpi í kjölfar samþykktar á Alþingi Íslendinga. Forseti Alþingis skipi nefndina en ekki ráðherra eins og til að mynda ráðherra dómsmála í Danmörku eða ríkisráð eins og er í Noregi. Eins og kom fram hjá hv. þm. Birgi Ármannssyni áðan er þetta niðurstaða í forsætisnefnd og hjá frumvarpshöfundi að undangenginni talsverðri umræðu um það hvernig þessum málum er háttað hjá frændþjóðum okkar og hvernig við höfum staðið að rannsóknum af þessu tagi hér á landi.

Ég vil vekja athygli á því að hér er að sjálfsögðu ekki verið að snerta við stjórnarskránni. Eftir sem áður er í stjórnarskránni 39. gr. um skipun þingmanna í rannsóknarnefnd. Hér er frekar hugsað til þess sem hefur verið reyndin á síðustu árum, allt frá 1956, að rannsóknarnefndir af þessu tagi séu skipaðar sérfræðingum utan þings.

Þetta frumvarp byggir öðrum þræði, eins og hér hefur líka komið fram, á tillögum um breytta skipan starfa á Alþingi, breyttri nefndaskipan, m.a. með því að hér taki til starfa sérstök eftirlits- og stjórnskipunarnefnd sem gæfi þinginu álit sitt á tillögu um rannsóknarnefnd eins og fram kemur í 1. gr. frumvarpsins en tekur einnig við og fjallar um eftir atvikum niðurstöðu rannsóknarinnar og gerir tillögur til úrbóta eins og fram kemur í 10. gr. frumvarpsins. Hér er þetta verkefni lagt á herðar Alþingis. Ég tel að það sé mikilvægt og þannig geti Alþingi betur og sem best uppfyllt eftirlitsskyldur sínar með framkvæmdarvaldinu. Við hljótum líka að huga að kostnaði við þessa skipan mála því að Alþingi er ekki ofhaldið af fjárveitingum þessa dagana eins og menn vita. Það er erfitt að meta fyrir fram og áætla hver kostnaður skuli vera af rannsóknum sem þessum. Ætli það verði ekki þannig að það muni enda í fjáraukalögum svipuðum þeim sem við vorum að ræða fyrr í dag.

Mig langar til að renna yfir helstu atriði sem vekja athygli mína í frumvarpinu og hér hefur borið á góma. Í mínum huga er mikilvægt að hvaða þingmaður sem er, þingnefnd, þingflokkur eða ráðherra getur lagt inn tillögu á Alþingi um að skipa skuli rannsóknarnefnd samkvæmt þessu frumvarpi. Hér er tryggður tiltekinn farvegur fyrir slíkar tillögur.

Það er líka mikilvægt, eins og kemur fram í 2. gr. frumvarpsins, að það er forseti Alþingi sem velja skal formann og afmarka umboð hverrar rannsóknarnefndar. Forseti skal gera það í samráði við forsætisnefnd og að fengnum tillögum sérstakrar eftirlits- og stjórnskipunarnefndar eða eftir atvikum þeirrar nefndar sem fer með eftirlitshlutverk Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu. Með þessu ákvæði er tryggt samráð innan þingsins og að samstaða skuli nást um skipan manna í rannsóknarnefnd og verklag sem ég tel einnig að sé mikilvægt.

Varðandi 2. gr. hafa komið fram athugasemdir við að gerð sé krafa um að formaður rannsóknarnefndar skuli vera lögfræðingur. Það var farið vandlega yfir þetta. Það skýrist í reynd í mínum huga af 6. gr. frumvarpsins þar sem kemur fram að formanni rannsóknarnefndar skal falið að stýra skýrslutöku af mönnum. Það er augljóst eins og hv. þm. Birgir Ármannsson nefndi áðan að það er viðkvæmasti hluti verksins. Eins og hv. þm. Eygló Harðardóttir kom líka inn á þarf sérstaklega að gæta vel að réttarstöðu og réttindum bæði þeirra sem kallaðir eru fyrir sem vitni og ég tala ekki um grunaðra manna. Ég styð þessa skipan mála að þarna skuli vera lögfræðingur í fyrirsvari með tilliti til þessara röksemda.

Það hefur verið nefnt að í 6. gr. er annars vegar mönnum, einstaklingum, stofnunum og lögaðilum gert skylt að afhenda gögn til rannsóknarnefnda af þessu tagi. Hins vegar er hvað skýrslutöku varðar byggt á því sem kalla má frjálsa upplýsingagjöf, þ.e. menn geta neitað því að gefa skýrslur fyrir rannsóknarnefnd af þessu tagi en til vara er rannsóknarnefndinni tryggð heimild til að leita atbeina dómstóla til að kveðja menn fyrir nefndina. Hér er annar háttur hafður á en var með rannsóknarnefnd Alþingis sem hér hefur borið á góma, rannsóknarnefnd vegna aðdraganda og falls bankanna. Sú nefnd hafði mun víðtækari heimildir og ef menn mættu ekki fyrir þá nefnd eða neituðu að mæta eða sögðu ekki satt og rétt frá, þá lágu við sektir og allt að tveggja ára fangelsi. Það er eins og hv. þm. Birgir Ármannsson nefndi áðan undantekningin og vonandi að við þurfum ekki að standa frammi fyrir jafnalvarlegum hlutum og við þá gerðum. Það ætti þá ef til þess kæmi að vera hægt að veita víðtækari heimildir með sérstökum lögum. Ég tek undir með hv. þingmanni að þær heimildir sem hér er verið að veita almennt ættu að duga í öllum öðrum tilfellum og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu að þetta verklag, þessi frjálsa upplýsingagjöf hefur gefist afar vel bæði í Danmörku og í Noregi.

Við skýrslutöku er miðað við að fylgt sé ákvæðum laga um meðferð sakamála. Það er sambærilegt við lögin sem nú gilda um umboðsmann Alþingis og giltu reyndar líka um rannsóknarnefnd Alþingis sem ég nefndi áðan.

Varðandi 10. gr. sem ég hef aðeins komið inn á áður sem fjallar um starfslok rannsóknarnefndar er gert ráð fyrir að forseti taki við skriflegri skýrslu um leið og henni er lokið. Forseti leggi hana strax til nefndarinnar sem fer með eftirlitshlutverk Alþingis. Nefndin fjalli síðan um niðurstöðuna og geri tillögur um úrvinnslu og meðferð niðurstaðnanna.

Frú forseti. Fyrir Alþingi liggja nú þegar tillögur um átta rannsóknarnefndir af ýmsu tagi. Auk þess samþykkti Alþingi á septemberþinginu að efna til tveggja og hálfrar rannsóknar, þ.e. tvær sérstakar rannsóknir og síðan stjórnsýsluúttekt að tillögu þingmannanefndarinnar sem var samþykkt 63:0 eins og oft er vitnað til. Þetta eru þá samtals tíu tillögur eða tíu rannsóknarnefndir sem liggja fyrir þinginu ef tillögurnar verða allar samþykktar. Þær eru af ýmsum toga, það er rannsókn á Icesave, það er rannsókn á einkavæðingu bankanna, það er rannsókn á Íbúðalánasjóði o.fl. Ég gæti bætt við nokkrum fleiri tillögum eða hugmyndum um rannsóknir, m.a. á uppgjöri peningamarkaðssjóðanna og einkavæðingu Hitaveitu Suðurnesja þannig að það er margt og mikið tilefni til að efna til rannsókna af ýmsu tagi.

Sá fjöldi sem nú er gerð tillaga um er athyglisverður í ljósi þess að frá heimastjórninni hafa aðeins verið skipaðar fimm rannsóknarnefndir þingsins samkvæmt 39. gr. og fjórar rannsóknarnefndir samkvæmt sérlögum, síðast rannsóknarnefnd Alþingis á aðdraganda að falli bankanna.

Það er ljóst, frú forseti, að það eru gríðarlega miklar og vaxandi kröfur gerðar til Alþingis um gegnsæi og skilvirkni í störfum. Fyrst og fremst eru uppi sterkar kröfur um að Alþingi sinni eftirlitsskyldu sinni með framkvæmdarvaldinu. Ég tel að frumvarpið sem komið er fram tryggi skilvirkan og samræmdan farveg í þinginu fyrir rannsóknir af því tagi sem kallað er eftir og tel hvort tveggja mikilvægt.

Ég vil að lokum, frú forseti, fagna framlagningu frumvarpsins og tel að það sé í raun það vel unnið að það ætti ekki að taka hv. allsherjarnefnd langan tíma að komast að niðurstöðu um tillögurnar sem hér liggja fyrir. Ég vona satt best að segja að við getum, ef ekki fyrir jól þá strax í byrjun janúarþings, gengið frá lagatexta í anda frumvarpsins og jafnframt breytingu á þingsköpum Alþingis þannig að við fáum eftirlits- og stjórnskipunarnefnd í þingið.