139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

rannsóknarnefndir.

348. mál
[19:59]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um skipun rannsóknarnefnda. Ég fagna því að þetta mál er komið fram. Ég held að það sé afskaplega mikilvægt að við höfum skýran ramma um það hvernig við skoðum mál í þinginu. Frumvarpið og athugasemdirnar við það eru mjög fróðleg lesning, bæði það sem snýr að sögunni á Íslandi og sömuleiðis það sem á við í öðrum löndum. Það eru mörg álitaefni og afskaplega mikilvægt að fara vel yfir þau. Það segir sig kannski sjálft. Mér finnst við hins vegar ekki aðeins eiga að skoða þetta í samanburði við önnur lönd heldur skiptir máli að við skoðum það miðað við eigin reynslu.

Það er mjög áhugavert að fara yfir þau mál sem rannsóknarnefndir hafa verið settar í á Íslandi. Ég held að þetta sé tæmandi upptalning sem ég ætla að fara yfir. Það var rannsókn á Landsbankamálinu 1911 og snerist hún um að Tryggva Gunnarssyni var sagt upp bankastjórastöðu og síðan voru allir í bankastjórninni látnir fara. Það var rannsókn eftir togaraútgerðina 1988, rannsókn á okri 1955 og rannsókn á milliliðagróða 1956, þá var rannsókn á Hafskipsmálinu 1985 og síðan rannsókn á gögnum sem snerta öryggismál Íslands 2006, hleranirnar, rannsókn á starfsemi vistheimila, Breiðavíkurnefndin, og því næst rannsókn á falli bankanna. Ég verð að viðurkenna að ég þekki ekki öll þessi mál. Þótt ég hafi gaman af að lesa sögu þekki ég lítið til sumra þeirra en ég held að óhætt sé að segja að þau beri öll þess merki að hafa farið hátt í þjóðfélagsumræðunni á hverjum tíma, verið mjög hörð pólitísk deilumál. Þá kemur að Alþingi að setja þau í þann farveg að þeir sem eiga hagsmuna að gæta og eru til skoðunar fái sem sanngjarnasta málsmeðferð. Einhver kynni að segja að það væri sjálfsagt og eðlilegt, sem það auðvitað er, en það er svo sannarlega ekki einfalt.

Það er mín skoðun að smán Alþingis hafi verið gríðarleg þegar við gengum frá síðustu rannsókn með landsdómsmálinu svokallaða. Ég upplifði þá hluti sem ég átti ekki von á að upplifa. Maður sá hvernig þingmenn brugðust fullkomlega í því máli og það versta í pólitíkinni kom fram í afgreiðslu þess máls.

Hér eru tekin fyrir tvö lönd, Noregur og Danmörk, og ég las mér svolítið til um það mál sem menn litu kannski helst til, þ.e. um Tamílamálið sem er sérstaklega áhugavert. Ég þekki það mál ekki svo vel að ég geti kveðið upp úr með hvort niðurstaðan hafi verið rétt eða röng. Ég held að hún hafi verið rétt miðað við þær upplýsingar sem ég hafði en ég las mér til um það í aðdraganda landsdómsmálsins. Það er fullkomlega öruggt að í Tamílamálinu unnu danskir þingmenn og danska þingið ólíkt hinu íslenska hvað varðaði faglega og málefnalega nálgun. Við sammæltumst um það hér, virðulegi forseti, allir 63 þingmenn með tölu, og ég held að hver einasti þingmaður hafi haldið um það ræðu í þinginu, að vanda málsmeðferð og gæta virðingar þingsins í öllum málum. Ég held að hver einasti þingmaður sem ég hef hlustað á hafi á einhverjum tímapunkti hvatt aðra þingmenn til að vanda betur til verka. Það á oft við um mál sem mörgum þykja ekkert sérstaklega stór. En í landsdómsmálinu var gengið frá málinu á nokkrum dögum með fá gögn í höndum og landsdómur settur yfir manni. Það var án nokkurs vafa fyrst og fremst gert sökum pólitískra hrossakaupa fremur en málefnalegra ástæðna. Í Tamílamálinu lágu fyrir margra mánaða rannsóknir þar sem einn þeirra sem síðan voru ákærðir var með stöðu grunaðs manns í því máli, ef ég man rétt. Í 3 þús. síðna skýrslu sem lá fyrir var tilgreint sérstaklega, þegar ákveðið var að fara með málið fyrir landsdóm, um hvað viðkomandi var sakaður. Það var mjög skýrt. Aðrar 3 þús. síður fóru í vitnaleiðslur. Þannig gengu Danir til verka en í miðjum ræðuhöldum um mikilvægi þess að vanda til verka og huga að virðingu þingsins gengum við frá málinu á nokkrum dögum með pólitískum hrossakaupum.

Það segir manni kannski tvennt. Þegar við göngum frá svona lagasetningu þurfum við að búast við hinu versta, við þurfum að búast við því að sú staða geti komið upp sem varð fyrir nokkrum vikum í þinginu. Ég get ekki séð neina aðra leið til að nálgast þetta mál. Síðan er hitt sem er kannski vonlaust að eiga við, þ.e. að menn séu meðvitaðir um að jafnvel þó að umgjörðin sé í þokkalegu lagi geti einstaklingarnir sem með málin fara, í þessu tilfelli þingmenn, brugðist á alla kanta.

Hv. þm. Eygló Harðardóttir talaði um að hafa þyrfti í huga að hér yrði þetta ekki notað sem pólitískt vopn. Það er enginn vafi í mínum huga að í Íslandssögunni verður þetta landsdómsmál tekið sem dæmi um það hvernig meiri hluti þingmanna notaði tækifærið til að ná sér niðri á viðkomandi einstaklingi og hugsanlega stjórnmálastefnu og nýtti til þess það tæki sem þingið hafði og var svo sannarlega ekki lagt upp með með það í huga. Ég hef áhyggjur af því í 2. gr. t.d. en þar segir, með leyfi forseta:

„Forseti Alþingis velur formann og afmarkar umboð nefndarinnar, hvort tveggja í samráði við forsætisnefnd og að fengnum tillögum þeirrar nefndar sem fer með eftirlitshlutverk Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu.“

Ég treysti vel núverandi forseta Alþingis og ætla þeim ágæta einstaklingi ekkert nema gott. Ég hef ekki reynt hæstv. forseta að neinu öðru, en ég held að við setjum svolítið mikið vald í hendur eins aðila með því að láta þetta standa eins og það er. Svo mikið hefur maður lært að ekki eru allir sammála um hvað samráð er. Það er allt frá því að tala við viðkomandi og hlusta, það kalla sumir samráð þótt menn séu ekki sammála, og út í að menn telji samráð vera þess eðlis að helst allir þurfi að komast að sameiginlegri niðurstöðu. Ég held því að það væri afskaplega mikilvægt að fleiri kæmu að því að velja í rannsóknarnefnd þar sem enginn er óumdeildur og allra síst í okkar fámenna landi. Tengsl manna eru eðlilega mikil þegar við erum rétt rúmlega 300 þús. Við erum bara eins og lítil borg í Evrópu eða Bandaríkjunum.

Ég verð að viðurkenna þegar ég fer yfir þetta að ég er enn þá hugsi, ef ég segi eins og er, yfir afmörkun á málum. Hún er mjög opin og er vísað í norsk og dönsk lög. Þar er reglan sú að hafa þetta mjög opið. Það getur vel verið að það sé niðurstaðan og það sé skynsamlegt en ég áskil mér allan rétt að skoða það. Síðan finnst mér líka skipta máli, ég held að nú sé ekki verri tími en hver annar, að við metum hvernig best er að haga rannsóknum og úttektum því að þær eru auðvitað mjög mismunandi. Það þarf ekki meira í hvert skipti sem við viljum skoða eitthvað og þegar þingið vill skoða hluti betur í eftirlitshlutverki sínu en að fá umsagnir eða heimsókn. Þá mætti hugsa sér einhver stig í því hvernig menn nálguðust það. Ég tel t.d. æskilegt að þegar þingnefndir fjalla um einstök mál fái þær tækifæri til láta vinna einhver verk fyrir sig. Við erum auðvitað með Ríkisendurskoðun sem hefur að mínu áliti staðið sig mjög vel í að koma með stjórnsýsluúttektir og allra handa skýrslur sem hafa nýst mjög vel en ég hef saknað þess að við höfum ekki betri tæki til að rannsaka hluti. Þá velti ég t.d. fyrir mér því sem við vorum að ræða í dag um Íbúðalánasjóð. Kannski hefði þingnefnd verið vel vakandi, eins og félagsmálanefnd, ef hún hefði sett af stað sjálfstæða skoðun á því hvað væri í gangi hjá Íbúðalánasjóði, eða hv. fjárlaganefnd í byrjun þessa árs, þá væri ríkisstjórnarmeirihlutinn kannski ekki í algjörum vandræðum við að ganga frá tugmilljarðaframlagi til Íbúðalánasjóðs út af máli sem hæstv. ríkisstjórn vissi í byrjun árs hvernig lægi í grófum dráttum. Þetta er skólabókardæmi um fráleit og fullkomlega óábyrg vinnubrögð. Ég veit ekki hvort menn átta sig á því. Það er verið að ganga frá nokkurra tuga milljarða framlagi til stofnunarinnar núna og það er svo langt frá því að menn hafi einhverjar upplýsingar, ekki nema þá hv. þingmenn stjórnarmeirihlutans. Ég ætla þeim ekki að halda einhverjum upplýsingum frá minni hlutanum en miðað við það sem er uppi á borði eru allar upplýsingar í skötulíki.

Það er margt sem þarf að skoða, bæði stórt og smátt. Í hv. viðskiptanefnd eru meiri og minni hluti í góðri samvinnu um t.d. rannsókn á því hvað gerðist í bönkunum, meðferð skuldara og skuldugra fyrirtækja eftir hrun þangað til eftirlitsnefnd efnahags- og viðskiptaráðherra tók til starfa. Þar erum við einmitt að fara yfir hvaða úrræði við höfum. Frumvarpið sem ég er 1. flutningsmaður að gerði ráð fyrir svipaðri vinnu og hjá rannsóknarnefnd Alþingis en mörgum finnst ansi mikið í lagt. Ég held að við þurfum að huga að því í þessu samhengi hvort við getum farið í minni rannsókn eða minni úttekt og skoðanir en hér er lagt upp með.

Sömuleiðis, virðulegi forseti, tel ég mjög mikilvægt að við lærum af dýrum mistökum og reynum að koma í veg fyrir að þau verði gerð aftur. Við höfum lært af fenginni reynslu (Forseti hringir.) að þótt menn telji á einhverjum tímapunkti að af einhverju geti ekki orðið er það svo sannarlega engin trygging fyrir því að það verði ekki.