139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

samkeppnislög.

131. mál
[20:44]
Horfa

Frsm. minni hluta viðskn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti minni hluta viðskiptanefndar um frumvarp til laga um breytingu á samkeppnislögum.

Í þessu frumvarpi eru lagðar til breytingar á núgildandi samkeppnislögum sem eru allar íþyngjandi fyrir fyrirtækin í landinu þrátt fyrir að þær gangi að vissu leyti mismunandi langt. Sumar eru afar íþyngjandi en aðrar minna.

Það má segja að í frumvarpinu felist vilji til að gera fjórþættar breytingar á samkeppnislögunum. Í fyrsta lagi er lagt til kærugjald að upphæð 200.000 kr. verði lagt á fyrirtæki vegna kæru mála til áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Í öðru lagi er lagt til að innheimt verði sérstakt gjald, samrunagjald að fjárhæð 250.000 kr., sem greiða skuli við hvern samruna sem tilkynntur er Samkeppniseftirlitinu óháð stærð þeirra fyrirtækja sem að samrunanum koma eða þeirri vinnu sem Samkeppniseftirlitið lætur í té vegna hans. Í þriðja lagi er lagt til að Samkeppniseftirlitið fái heimild til að skjóta úrskurðum áfrýjunarnefndar samkeppnismála til dómstóla, en fram til þessa hefur eftirlitið sem lægra sett stjórnvald þurft að sæta ákvörðunum áfrýjunarnefndarinnar sem æðra setts stjórnvalds. Fjórða breytingin sem frumvarpið felur í sér er sú viðamesta og mest íþyngjandi en í henni eru lagðar til breytingar á 16. gr. laganna. Annars vegar er lagt til það sem kallað er í frumvarpinu breyting á atferli eða skipulagi fyrirtækja en felur í sér heimild Samkeppniseftirlitsins til að brjóta fyrirtæki upp vegna aðstæðna eða háttsemi sem kemur í veg fyrir eða takmarkar samkeppni eða raskar samkeppni. Meiri hluti nefndarinnar leggur til breytt orðalag á þessu ákvæði, þ.e. að það eigi við um háttsemi eða aðstæður sem séu skaðlegar samkeppni og teljist vera almenningi til tjóns að mati Samkeppniseftirlitsins. Hins vegar mælir tillagan fyrir um að Samkeppniseftirlitinu verði ekki aðeins heimilað að grípa til aðgerða gegn samningum, skilmálum eða athöfnum sem brjóta í bága við bannákvæði laganna heldur einnig við brotum gegn sáttum eða ákvörðunum sem þegar hafa verið teknar á grundvelli laganna.

Virðulegi forseti. Frumvarpið var fyrst lagt fram á 138. löggjafarþingi. Síðan þá hefur það verið umdeilt enda er í því mælt fyrir um viðurhlutamiklar valdheimildir til handa Samkeppniseftirlitinu til íhlutunar í íslensku viðskiptalífi. Staðreyndin er sú að flestir eða allir umsagnaraðilar sem sendu viðskiptanefnd skriflegar umsagnir um frumvarpið eða mættu á fundi nefndarinnar og þurfa hugsanlega að sæta þeim aðgerðum sem frumvarpið mælir fyrir um gagnrýndu efni þess og mæltu gegn samþykkt þess í þeirri mynd sem það var lagt fram. Staðreyndin að Samkeppniseftirlitið sjálft mæli helst með samþykkt frumvarpsins segir að mati minni hluta viðskiptanefndar alla söguna um efni frumvarpsins. Það er ljóst og hefur komið fram að það er Samkeppniseftirlitið sjálft sem hefur óskað eftir því að fá þessar valdheimildir í hendur. Það er ástæðan fyrir því að frumvarpið er lagt fram. Ekki einlæg sannfæring formanns viðskiptanefndar, hv. þm. Lilju Mósesdóttur, um að hér þurfi að gera breytingar á samkeppnislögunum eða valdheimildum sem Samkeppniseftirlitið hefur í höndum samkvæmt núgildandi lögum eins og fram kom í andsvörum hv. þingmanns áðan þegar hv. þingmaður átti í verulegum erfiðleikum með að upplýsa um ástæður þess að frumvarpið væri nú lagt fram.

Virðulegur forseti. Ég ætla að fara yfir meðferð málsins í viðskiptanefnd. Þannig er að við sem sitjum í minni hluta nefndarinnar gagnrýnum meðferð málsins harðlega. Þá er rétt að halda því til haga að flestir hagsmunaaðilar sem óskuðu eftir því að mæta á fundi nefndarinnar til að fylgja umsögnum sínum eftir mættu og voru kallaðir á fund viðskiptanefndar. Því miður hafði meiri hluti nefndarinnar ekki biðlund til að ljúka efnislegri umfjöllun um málið og verða við óskum okkar um nánari gestakomur fyrir nefndina. Í því sambandi er mikilvægt að hafa í huga að með þessu frumvarpi eru lagðar til grundvallarbreytingar á gildandi samkeppnislögum sem færa Samkeppniseftirlitinu mikil völd í hendur. Verði frumvarpið að lögum verður lögfest íhlutunarheimild samkeppnisyfirvalda sem er mun víðtækari og matskenndari en sú sem var í eldri samkeppnislögum. Slík heimild var afnumin við setningu laga nr. 44/2005. Heimildin var reyndar ekki jafnvíðtæk og -matskennd og sú sem er lagt til að verði felld inn í samkeppnislög.

Af þessari ástæðu óskuðum við í minni hlutanum eftir því að fyrir nefndina yrðu kallaðir kennarar í samkeppnisrétti við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík til að gefa munnlegt álit á efni frumvarpsins. Fræðimenn á sviði samkeppnisréttar hafa á fyrri stigum málsins ekki gefið nefndinni álit sitt á frumvarpinu. Þeirri beiðni var vissulega vel tekið af hálfu forustu nefndarinnar. En þar sem ekki tókst að kalla þessa gesti þegar í stað fyrir nefndina gafst okkur ekki tækifæri til þess að ræða við fræðimenn um málið. Í stað þess að fresta afgreiðslu málsins þar til slík álit lægju fyrir ákvað meiri hlutinn að afgreiða málið út úr nefndinni, þrátt fyrir að fyrir lægi að hægt væri að verða við beiðnum okkar innan örfárra daga.

Þessi vinnubrögð, virðulegi forseti, eru ámælisverð. Ég leyfi mér að gagnrýna þau harðlega og finnst ámælisvert að ekki hafi verið orðið við þessari málefnalegu beiðni okkar sem myndum minni hlutann. Það að hafna svo sjálfsagðri beiðni um málsmeðferð í svona viðurhlutamiklu máli fyrir íslenskt viðskiptalíf getur ekki talist til vandaðra vinnubragða. Það varpar að mínu mati rýrð á faglega meðferð málsins innan viðskiptanefndar. Það sama má segja um málið allt. Það er alveg rétt sem hv. þm. Pétur Blöndal sagði í andsvari að grundvöllur málsins er veikur. Auðvitað hefði þingið og hæstv. ráðherra þurft að leggjast í nánari greiningu á öllum mörkuðum íslensks viðskiptalífs og kanna hvernig staðan væri með tilliti til markaðshlutdeildar, samþjöppunar og annarra slíkra mælikvarða sem gengið er út frá við túlkun á samkeppnislögum áður en frumvarpið var lagt fram. Slíka greiningarvinnu hefði átt að fara í áður en menn lögðu í þá vegferð að veita Samkeppniseftirlitinu heimildir til þess að brjóta upp fyrirtæki án þess að þau hefðu gerst brotleg við lög.

Það er að sínu leyti sárgrætilegt að vinnubrögðin í nefndinni hafi verið með þessum hætti, ekki síst þegar litið er til þess hvaða hv. þingmenn eiga sæti í nefndinni. Undir nefndarálit meiri hlutans skrifa t.d. hv. þm. Atli Gíslason, sem var formaður sérstakrar þingmannanefndar sem fjallaði um bætt vinnubrögð á Alþingi, hv. þm. Magnús Orri Schram sem sat í sömu nefnd ásamt hv. þm. Eygló Harðardóttur. Ég hélt að þegar sú ágæta nefnd sem fór yfir vinnubrögð í þinginu skilaði skýrslu um breytt og bætt vinnubrögð og þegar þingmenn koma að meðferð mála ætti hún að vera faglegri og merkilegri en var í þessu tilviki. Þetta finnst mér miður. Við sjáum fulla ástæðu til þess að gagnrýna málsmeðferðina að meiri hlutinn skyldi ekki hafa biðlund til þess að bíða eftir því að fyrir nefndina yrðu kallaðir fræðimenn úr Háskóla Íslands og Háskólanum í Reykjavík á sviði samkeppnisréttar til þess að veita nefndinni álit sitt á breytingunum sem frumvarpið mælir fyrir um.

Í tilefni af þessu vil ég segja það að að öðru leyti hafa vinnubrögðin í hv. viðskiptanefnd og hjá hv. þm. Lilju Mósesdóttur, formanni nefndarinnar, verið til mikillar fyrirmyndar í öðrum málum þannig að samstarf okkar hefur verið gott fram til þessa. Þegar um slíkt mál er að ræða, og vinnubrögð sem viðhöfð eru með þeim hætti sem ég hef lýst, hlýtur maður að gera við það alvarlegar athugasemdir.

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði áðan hefur verið mikil andstaða við frumvarpið sem við fjöllum um. Helsta ástæða hinnar miklu andstöðu sem birtist í viðskiptanefnd við meðferð málsins frá fulltrúum íslenskra fyrirtækja er sú meginbreyting sem frumvarpið felur í sér að heimila Samkeppniseftirlitinu að skipta upp fyrirtækjum eða fyrirskipa breytingar á skipulagi þeirra án þess að þau hafi gerst sek um brot á samkeppnislögum. Samkvæmt gildandi samkeppnislögum hafa brot gegn bannákvæðum laganna verið skilyrði alvarlegra afskipta af skipulagi fyrirtækja. Í frumvarpinu er lagt til að Samkeppniseftirlitinu skuli veitt slík valdheimild til afskipta á grundvelli „aðstæðna“ en ekki einvörðungu á grundvelli „háttsemi“ eða lögbrota eins og verið hefur. Ljóst má vera að heimild til uppskiptingar sem Samkeppniseftirlitinu verður gert kleift að grípa til einungis með vísan til „aðstæðna“, eins og Samkeppniseftirlitið metur þær á tilteknum markaði, er afar matskennd og veitir eftirlitinu umfangsmiklar heimildir sem kunna að reynast fyrirtækjum sem þeim þurfa að sæta gríðarlega íþyngjandi.

Ég vil taka það sérstaklega fram sé það mat löggjafans, og ég útiloka það ekkert, að aðstæður í atvinnulífinu séu með þeim hætti að nauðsynlegt sé að veita Samkeppniseftirlitinu víðtækar og íþyngjandi valdheimildir telur minni hluti viðskiptanefndar að gera verði þá lágmarkskröfu að valdheimildin sé skilgreind með skýrum hætti í lögunum þannig að útfært sé nákvæmlega í lagatexta, ekki í nefndaráliti, við hvers konar aðstæður heimildin verði virk. Svo sem með vísan til markaðshlutdeildar yfir ákveðnum mörkum, tilgreindri samþjöppun á markaði eða öðrum þeim mælikvörðum sem almennt eru lagðir til grundvallar í samkeppnisrétti og eru afar vel þekktir í samkeppnisfræðunum. Sú skoðun byggist á því meginsjónarmiði að sníða beri stjórnvöldum skýran lagaramma og að tryggt sé að stjórnvöld misbeiti ekki valdi sínu heldur gæti meðalhófs við beitingu þessari.

Minni hlutinn telur mikilvægt að hafa þessi meginsjónarmið að leiðarljósi jafnvel þó að margt hafi farið aflaga í íslensku viðskiptalífi á síðustu missirum og árum og að framferði forsvarsmanna ýmissa fyrirtækja hafi verið ámælisverð. Því er ekki haldið fram að allt hafi verið í stakasta lagi í íslensku viðskiptalífi, síður en svo. Við verðum samt sem áður að hafa þessi meginsjónarmið í huga þrátt fyrir það. Sú leið er hins vegar ekki farin í frumvarpinu sem við ræðum heldur er lagt til að lögfest verði afar matskennd heimild til að breyta skipulagi fyrirtækja sem má beita án þess að brotið hafi verið gegn samkeppnislögum og í raun án allrar leiðsagnar löggjafans um það með hvaða hætti henni skuli beitt.

Verði frumvarpið samþykkt mun beiting heimildarinnar þvert á móti einungis byggja á mati Samkeppniseftirlitsins á aðstæðum eða háttsemi sem stofnunin telur að komi í veg fyrir, takmarki eða hafi skaðleg áhrif á samkeppni. Þótt minni hlutinn vilji ekki með nokkrum hætti gera lítið úr mikilvægi þess að haga verði löggjöf á þessu sviði með þeim hætti að neytendur njóti verndar, telur hann engu að síður að lögfesting svo matskenndrar og íþyngjandi íhlutunarheimildar gangi of langt og kunni að hafa óæskileg áhrif. Hún bjóði þeirri hættu heim að teknar verði geðþóttaákvarðanir um dýrmætar eignir eigenda íslenskra atvinnufyrirtækja og þar við bætist að það sé vandséð að neinar af þeim breytingum sem lagt er til að verði gerðar á samkeppnislögum leiði til hraðari eða betri málsmeðferðar hjá samkeppnisyfirvöldum líkt og kallað hefur verið eftir.

Við meðferð málsins í nefndinni var því haldið fram að heimildin til uppskiptingar sem frumvarpið mælir fyrir um sé sambærileg heimildum samkeppnisyfirvalda annarra landa, svo sem í Noregi. Sú fullyrðing hefur verið ein meginforsenda frumvarpsins hvað þennan hluta varðar. Við meðferð málsins í nefndinni hefur verið upplýst að sú forsenda er röng. Það var á það bent að heimildir breskra samkeppnisyfirvalda til að skipta upp fyrirtækjum séu háðar ítarlegum málsmeðferðarreglum þar sem fyrst og fremst þarf að fara fram ítarleg rannsókn á gerð viðkomandi markaðar, eðli samkeppnislegra vandamála og greiningu á þeim úrræðum sem kemur til greina að beita. Slíku er ekki til að dreifa í þessu frumvarpi og alls ekki í lagatextanum, það sjá menn strax við lestur frumvarpsins. Þvert á móti hafa umsagnaraðilar sem nefndin hefur leitað til sýnt fram á að heimildin sem kveðið er á um í frumvarpinu veiti íslenskum samkeppnisyfirvöldum mun rýmri og matskenndari heimildir til uppskiptingar fyrirtækja en samkeppnisyfirvöldum í öðrum löndum eru tryggðar. Sú staðreynd leiðir til þess að samkeppnisstaða íslenskra fyrirtækja sem eru þátttakendur í alþjóðlegri samkeppni veikist gagnvart erlendum samkeppnisaðilum. Þá skiptir engu máli á hvaða sviðum við erum að tala en þetta snýr að ýmsum þáttum íslensks atvinnulífs.

Minni hlutinn telur síðan fulla ástæðu til að benda á að verði frumvarpið óbreytt að lögum séu verulegar líkur á að uppskiptingarheimildin rýri framtíðarverðmæti íslenskra fyrirtækja og dragi úr líkum á því að þau gangi kaupum og sölum milli aðila í viðskiptalífinu. Ekki verður séð að í því felist sérstök hvatning fyrir hugsanlega kaupendur að fyrirtækjum, t.d. þeim fyrirtækjum sem um þessar mundir eru í eigu banka- og fjármálastofnana, að þau gangi kaupum og sölum. Enda er líklegt að kaupendur og fjárfestar haldi að sér höndum ef þeir geta átt von á því að fyrirtæki sem fjárfest er í verði skipt upp eftir að kaupin eiga sér stað.

Virðulegi forseti. Til viðbótar uppskiptingarheimildinni í 2. gr. frumvarpsins er lagt til að Samkeppniseftirlitið geti ekki aðeins gripið til aðgerða gegn samningum, skilmálum eða athöfnum sem brjóta í bága við bannákvæði laganna heldur einnig gegn brotum fyrirtækja gegn sáttum eða ákvörðunum sem þegar hafa verið teknar á grundvelli laganna. Með þessari breytingu er í raun verið að gefa Samkeppniseftirlitinu heimild til að breyta og bæta skilyrðum við ákvörðun, eftir að hún hefur verið tekin, ef fyrirtæki brýtur gegn viðkomandi ákvörðun og brot fyrirtækis eru ,,þess eðlis“ að þau kalli á frekari skilyrði.

Við í minni hlutanum teljum mikilvægt að íslensk fyrirtæki eigi að geta treyst því að þegar stjórnvald hefur tekið ákvörðun sé hún endanleg og verði ekki breytt af hálfu þess síðar. Slíkri ákvörðun verði ekki breytt eða hún endurskoðuð nema almenn skilyrði séu fyrir endurupptöku hennar eða henni hnekkt af æðra stjórnvaldi eða eftir atvikum dómstólum. Það er óeðlilegt að Samkeppniseftirlitið, umfram önnur stjórnvöld, hafi heimild til að bæta við eða breyta eldri ákvörðunum án þess að skilyrðum stjórnsýslulaga, um endurupptöku og eftir atvikum afturköllun, jafnvel andmæli, séu fyrir hendi. Þar með er ekki sagt að við í minni hlutanum teljum að stjórnvöld þurfi að sæta því að fyrirtæki komist upp með að hlíta ekki ákvörðunum sem teknar hafa verið án þess að slíkt hafi einhverjar afleiðingar í för með sér fyrir þau. Engu að síður er það mat okkar að nægilegt sé að slík brot eigi að varða þeim viðurlögum sem nú þegar er mælt fyrir um í IX. kafla samkeppnislaga.

Virðulegi forseti. Í frumvarpinu er lagt til að Samkeppniseftirlitinu verði heimilt að skjóta úrskurðum áfrýjunarnefndar samkeppnismála til dómstóla. Í því sambandi bendir minni hlutinn á þá meginreglu íslensks stjórnsýsluréttar að lægra settu stjórnvaldi beri að hlíta ákvörðunum æðra setts stjórnvalds og geti þar af leiðandi ekki hlutast til um að fá úrskurðum æðra setts stjórnvalds hnekkt fyrir dómstólum, enda almennt talið að lægra sett stjórnvöld hafi ekki lögvarða hagsmuni af því að geta borið mál undir dómstóla eins og margoft hefur verið dæmt í Hæstarétti Íslands. Minni hlutinn fær ekki séð að nein haldbær rök hafi verið færð fram fyrir því að það eigi að víkja frá þessari meginreglu í tilviki Samkeppniseftirlitsins. Þvert á móti bendir minni hlutinn á að með því að veita Samkeppniseftirlitinu sem lægra settu stjórnvaldi slíka málsskotsheimild megi færa rök fyrir því að fyrirtæki yrðu lengur í óvissu um réttarstöðu sína í tilteknum málum en ástæða væri til.

Að lokum, eins og ég sagði áðan, eru lagðar til í þessu frumvarpi tvenns konar gjaldtökuheimildir. Í fyrsta lagi er lagt til að með kæru til áfrýjunarnefndar samkeppnismála skuli fylgja kærugjald að fjárhæð 200.000 kr., sem endurgreiðist ef málið vinnst fyrir nefndinni. Í öðru lagi er lagt til að innheimta skuli svokallað samrunagjald sem nema skuli 250.000 kr. vegna samrunatilkynningar. Hér er um gjaldtöku að ræða sem þarf ekki að vera fyrirtækjum mjög þungbær. Við bendum þó á í nefndaráliti okkar, og leggjum áherslu á það, að gjaldtaka vegna meðferðar samkeppnismála skuli vera hógvær, ekki síst gagnvart minni fyrirtækjum sem eru að reyna með samrunum og ýmsum hagræðingaraðgerðum að ná fram hagkvæmni í rekstri sínum. Þetta á auðvitað ekki bara við um stór fyrirtæki heldur líka lítil fyrirtæki sem hugsanlega eru að reyna að þjappa sér saman til að geta lifað við þær erfiðu aðstæður sem nú eru uppi í samfélaginu og í íslensku atvinnulífi. Þó svo að réttlætanlegt sé að innheimta eitthvert gjald viljum við benda á að slíkt gjald verður að vera hóflegt. Við bendum t.d. á að áfrýjunarfjárhæð til Hæstaréttar er mun lægri í málum sem þangað rata en kærugjöld til áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Menn verða að gera sér grein fyrir því að þegar menn kæra mál og ákvarðanir Samkeppniseftirlitsins til áfrýjunarnefndar samkeppnismála felst ekki bara í því sá kostnaður sem nemur kærugjaldinu heldur einnig gríðarlegur lögfræðikostnaður vegna þess að umfang þessara mála er mikið og kostnaðurinn við að reka þau fyrir stjórnvaldinu er í mörgum tilvikum geysilega hár. Á þetta bendum við án þess að mæla sérstaklega gegn gjaldtökunni sem slíkri. Ég óska eftir því að fjárhæð gjaldsins verði tekin til endurskoðunar þegar málið kemur til nefndarinnar aftur á milli 2. og 3. umr. með vísan til þess sem ég sagði hér áðan um þá stöðu sem uppi er í íslensku viðskiptalífi enda kann þessi gjaldtaka að hitta sérstaklega minni fyrirtæki illa fyrir.

Virðulegi forseti. Af þeim ástæðum sem ég hef hér rakið má vera ljóst að við sem myndum minni hluta viðskiptanefndar og skrifum undir þetta álit, þ.e. ég og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, leggjumst gegn því að frumvarpið verði samþykkt. Ég vil hins vegar ítreka það sem ég sagði hér í upphafi að menn verða að bera hagsmuni neytenda fyrir brjósti þegar kemur að löggjöf um viðskiptalíf. Það viljum við gera þrátt fyrir að við séum á móti því að veita Samkeppniseftirlitinu valdheimildir til að brjóta upp fyrirtæki sem ekki hafa gerst brotleg við lög. Það er alveg rétt að neytendur hafa orðið á síðustu árum fyrir miklum búsifjum sem þarf að reyna að koma í veg fyrir að þeir verði fyrir aftur fyrir. Ég tel hins vegar að með því að setja svona íþyngjandi ákvæði og almenna reglu inn í samkeppnislögin sé einfaldlega gengið of langt.

Ég velti því líka fyrir mér, og varpa því inn í umræðuna, þegar ég hlustaði á hv. þm. Lilju Mósesdóttur mæla fyrir nefndaráliti meiri hlutans hvort það gæti verið að sú breytingartillaga sem í frumvarpinu felst, að heimila Samkeppniseftirlitinu að skipta upp eða brjóta upp fyrirtæki án þess að þau hafi gerst brotleg við samkeppnislög, kunni að brjóta í bága við önnur ákvæði samkeppnislaga. Ég velti því fyrir mér þegar ég heyrði hv. þingmann tala um einokun og að nauðsynlegt væri að berjast gegn einokun á tilteknum mörkuðum sem væru þannig skilgreindir, hvort sem það er gert út frá vöru, landfræðilegri stöðu eða hverju sem er. Þá koma auðvitað upp í hugann ákvæði samkeppnislaga um markaðsráðandi stöðu. Þannig hefur það verið í íslenskum samkeppnisrétti alveg frá upphafi, og ég hygg í samkeppnisrétti allra þeirra ríkja sem við berum okkur saman við, að markaðsráðandi staða sem slík er ekki bönnuð. Það er ekki bannað samkvæmt íslenskum lögum eða öðrum samkeppnislögum að vera í markaðsráðandi stöðu, vera sterkur á þeim markaði sem starfað er á. Sú staða telst ekki brot gegn samkeppnislögum fyrr en menn fara að misnota markaðsráðandi stöðu sína, þá fara bannákvæði samkeppnislaga að klingja, þegar menn fara að misbeita markaðsráðandi stöðu gegn öðrum fyrirtækjum eða gegn neytendum. Þá veltir maður því fyrir sér þegar maður skoðar það ákvæði samkeppnislaga og ber það saman við það frumvarp sem hér er til umfjöllunar, sem mælir fyrir um að Samkeppniseftirlitinu sé heimilt að brjóta upp fyrirtæki án þess að þau hafi brotið gegn ákvæðum samkeppnislaganna, hvort í raun sé verið að banna markaðsráðandi eða sterka stöðu fyrirtækja á markaði, af því að ég sé ekki að þetta tvennt fari endilega saman.

Þar fyrir utan og þessu til viðbótar er það ljóður á ráði þeirra sem mæla fyrir þessu frumvarpi og tala fyrir því hversu ófyrirséð það er á hvaða sviðum atvinnulífsins þessari víðtæku heimild verður beitt. Ég varpaði þeirri spurningu fram til hv. þm. Lilju Mósesdóttur, formanns nefndarinnar, og hún gat ekki svarað þeirri spurningu. Það finnst mér dálítið merkilegt að talsmenn frumvarpsins, talsmenn þess að Samkeppniseftirlitinu verði gert heimilt að brjóta upp fyrirtæki á markaði sem ekki hafa gerst brotleg við samkeppnislög, skuli ekki þegar svona langt er komið í umræðunni um þetta mál hafa neinar hugmyndir um það á hvaða sviðum atvinnulífsins þessari heimild verði hugsanlega beitt. Það hafa vissulega komið upp sjónarmið um að of mikil samþjöppun hafi verið á matvörumarkaði, undir það má taka, og á ýmsum öðrum mörkuðum en hv. þingmaður gat ekki svarað því á hvaða sviðum þessari heimild verði hugsanlega beitt.

Þá veltir maður því fyrir sér: Kann að vera að henni verði hugsanlega beitt á þeim mörkuðum þar sem ríkið er í samkeppni við einkaaðila? Þeir markaðir eru fjölmargir. Ég get t.d. nefnt fjölmiðlamarkaðinn af því að hv. þm. Róbert Marshall, fyrrverandi formaður Blaðamannafélags Íslands, er hér í hliðarsal. Þar hefur samkeppni verið mjög raskað, í samkeppni ríkisins gagnvart einkaaðilum. Megum við hugsanlega búast við því, svo að ég endi þessa ræðu mína á svolítið jákvæðum nótum, að Samkeppniseftirlitið láti til skarar skríða gagnvart Ríkisútvarpinu til varnar samkeppni á fjölmiðlamarkaði? Ég er ekki bjartsýnn á það en ég velti þessu atriði upp í umræðunni að lokum.

Að svo búnu, virðulegi forseti, ítreka ég það sem fram kom í ræðu minni að við sem myndum minni hluta viðskiptanefndar teljum að frumvarpið hafi það marga galla að ekki sé skynsamlegt að samþykkja það. Þær breytingar sem með frumvarpinu er verið að gera á samkeppnislögunum eru gríðarlega íþyngjandi fyrir fyrirtækin í landinu, þó að þær gangi mislangt. Og ekki hafa verið færð nein efnisleg rök fyrir því (Forseti hringir.) að frumvarpið skuli ná fram að ganga óbreytt.