139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

samkeppnislög.

131. mál
[21:23]
Horfa

Frsm. minni hluta viðskn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður getur kannski svarað því í ræðu sinni við hvaða vandkvæðum er verið að bregðast með þessu frumvarpi. Hv. þingmaður rökstuddi það ekki í andsvari sínu.

Það er rétt, ég gagnrýndi málsmeðferðina í viðskiptanefnd. Ég gerði það harðlega og ég stend við þá gagnrýni vegna þess að ég er ekki vanur því á Alþingi og í nefndastarfi að þegar verið er að gera róttækar breytingar á grundvallarlöggjöf sem varðar annaðhvort almenning eða fyrirtækin í landinu að ekki sé orðið við óskum þingmanna um að fræðimenn á viðkomandi sviði séu kallaðir til til þess að veita nefndunum a.m.k. munnlegt álit á viðfangsefnum sem eru til umræðu hverju sinni.

Það er rétt að það var vel tekið í beiðni mína. Ég tók það fram í ræðu minni. Meiri hlutinn hafði hins vegar ekki biðlund til þess að bíða eftir þessum gestum (Forseti hringir.) til þess að fjalla um málið við efnislega umræðu í nefndinni fyrir 2. umr. um frumvarpið. Það er aðalumræða um lagafrumvarp hverju (Forseti hringir.) sinni sem er til umfjöllunar á Alþingi.