139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

samkeppnislög.

131. mál
[21:50]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég veit ekki hvort hv. þm. Magnús Orri Schram misskildi þessa stuttu ræðu mína en ég efast ekkert um vilja manna til að setja falleg og háleit markmið á blað. En ég velti fyrir mér, kannski út af bakgrunni mínum, hvernig lagaregla er orðuð og hvort hún er sett fram með skýrum hætti þannig að eftir henni sé hægt að fara og hægt að beita henni. Nú eru skattalög sett í því skyni að gæta almannahagsmuna, er ekki svo? Heimildir skattyfirvalda eru vissulega víðtækar en þær eru niðurnjörvaðar í lögum, þar er um að ræða lögbundnar, skýrar heimildir, ekki bara almenn markmið, ekki bara loftkenndar yfirlýsingar um að stuðla eigi að virkri samkeppni eða hagsmunum neytenda. Þar eru skýrar, hlutlægar reglur sem veita skýra leiðsögn um hvað má og hvað má ekki. Ég velti fyrir mér hvort samkeppnisrétturinn sé svo einstakur að engin þörf sé á að hafa svoleiðis reglur þegar fjallað er um hvernig stjórnvöld eiga að fara með vald sitt og hvernig ekki.

Á sviði fjármálamarkaðar dregur enginn í efa að heimildir eftirlitsaðila, Fjármálaeftirlitsins, verða að vera sterkar og skýrar. Þær eru skýrar, hlutlægar, niðurnjörvaðar. Á sviði umhverfisréttar gildir það sama. Á sviði vinnuverndar gildir það sama. Ég spyr: Af hverju í veröldinni ættum við að gera aðrar kröfur til lagasetningar á sviði samkeppnisréttar? Af hverju ættum við að leyfa okkur að fylla lögin af loftkenndum yfirlýsingum (Forseti hringir.) sem veita víðtækar heimildir án þess að í þeim sé nokkurt hald?