139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

kynning nýs Icesave-samnings.

[10:33]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Tíðindi berast nú af því að nýr Icesave-samningur sé á lokastigi og er óskiljanlegt að heyra í fréttum að til standi að upplýsa fjölmiðla um þennan verðandi samning áður en hann er kynntur hjá æðstu valdastofnun þjóðarinnar, áður en hann er kynntur fyrir þingnefndum Alþingis. Hélt ég reyndar að menn hefðu lært það í júní í fyrra að það ráðslag sem þar var viðhaft, að kynna samningana úti í bæ áður en Alþingi hafði af því veður, væri ekki til framdráttar fyrir okkur öll. Ég vona og ég ætlast til þess að þær fréttir sem heyrst hafa í fréttum séu ekki á rökum reistar og að það sé skýrt að ef nýr Icesave-samningur sé í burðarliðnum sé hann fyrst kynntur fyrir viðeigandi nefndum þingsins, hv. utanríkismálanefnd og hv. fjárlaganefnd.

Ég vil spyrja hæstv. fjármálaráðherra nokkurra spurninga vegna þessara frétta og ekki síst til að fá fregnir af því hvort ætlunin sé að ljúka þessum samningum á allra næstu dögum:

1. Hver er ávinningurinn af þessum samningum sem í burðarliðnum eru miðað við þá samninga sem illu heilli voru samþykktir hér 29. desember á síðasta ári? Hver er munurinn í tölum á þeim samningum og þeim drögum sem nú virðast liggja fyrir?

2. Hefur verið metin raunveruleg áhætta af því að ganga ekki til samninga núna og fara í það að svara bréfi ESA og láta málið ganga þann veg? Hefur það verið metið sem valkostur við þá leið sem nú er verið að ganga frá?

3. Gengisþáttur Icesave-samninga mun alltaf skipta verulegu máli fyrir niðurstöðu þessa máls, hefur hún verið metin og getur hæstv. fjármálaráðherra metið það (Forseti hringir.) hversu miklu máli það skiptir ef gengið verður okkur mjög óhagstætt þegar litið er til Icesave-samninganna?