139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

atvinnumál á Suðurnesjum.

[10:45]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég hjó eftir því að hæstv. ráðherra vill vanda sig og ég vil gjarnan koma hér upp og trúa því að það sé bæði verið að vinna af heilindum að því að auka atvinnu á Suðurnesjum og að menn séu sannarlega að vanda sig. En hvar sér þess stað í fjárlagafrumvarpinu að það sé verið að áætla einhverja fjármuni til m.a. flutnings Landhelgisgæslunnar til Suðurnesja?

Og varðandi ECA-verkefnið. Hæstv. ráðherra kom auðvitað með fullt af yfirlýsingum sem við höfum kannski heyrt úr munni hans áður að einhverju leyti en við höfum hvergi heyrt annars staðar. Til að mynda hefur það komið fram að fyrirtækið hafi lýst því yfir að það hyggist greiða allan kostnað sem á ríkið mun falla. Fyrst og fremst hefur það heyrst að menn hafi áhyggjur af umferðarmengun, bæði hávaða og annarri slíkri, en að það hafi einhver sérstök önnur (Forseti hringir.) áhrif á flugmálayfirvöld. Ég held að þarna sé kannski komin ein af helstu ástæðunum fyrir því að atvinnusköpunin gengur svo illa í landinu, (Forseti hringir.) ráðherrarnir þvælast fyrir.

(Forseti (ÁRJ): Forseti hvetur þingmenn til að virða tímamörk.)