139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[16:13]
Horfa

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil nú þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans og yfirferð yfir fjárlögin og sýn hans á fjárlögin eins og þau voru birt og eins og þau standa nú til afgreiðslu og sýn hans á úrræði í því efnahagshruni sem við stöndum frammi fyrir og afgreiðslu þessara fjárlaga.

Hann nefndi sérstaklega framtaksleysi ríkisstjórnarinnar og að það þyrfti að koma atvinnulífinu í gang. Ég er sammála því að það þarf virkilega að koma litlum og meðalstórum fyrirtækjum í gang. Það er verið að vinna að því og ég held að sú vinna sé á síðustu metrunum. Búið er að ganga frá þeim tillögum sem stuðla að því að styrkja fjölskyldur sem eiga í erfiðleikum vegna lána. Nú er komið að fyrirtækjunum, ég held að það sé bara á síðustu metrunum. Hv. þingmaður nefndi sérstaklega stóriðjuna og Helguvík, það ætti að drífa sig í Helguvík. Ég vil þá biðja hv. þingmann um að svara því hvar hann ætlar að fá orku í Helguvík.

Varðandi heilbrigðisþjónustuna er það sannarlega þannig að þegar frumvarpið var lagt fram var það gert með þeim fyrirvara að breytingar á því yrðu skoðaðar við umfjöllun þingsins því það var alveg ljóst frá byrjun að hagræðingarkrafan sem gerð var á heilbrigðisráðuneytið upp á 4,7 milljarða var of þung. Því var unnið strax að því að gera ákveðna úttekt. Niðurstöðurnar liggja fyrir og ég tel að samkvæmt þeim sé ekki verið að breyta uppbyggingunni sem verið hefur í heilbrigðisþjónustunni. Ég vil biðja hv. þingmann um að nefna dæmi, með tilliti til þeirra breytingartillagna sem liggja frammi.