139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[16:45]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Ég þakka hv. þm. Þór Saari fyrir svarið. Ég er áhugamaður um húsafriðun, það er rétt, en þegar málið kom til kasta Alþingis og fjárlaganefndar byggðist mat fjárlaganefndar á tillögum sem húsafriðunarnefnd hafði lagt fram um hvaða nýjar byggingar ætti að vernda og leggja fjármuni í að gera fallegri eða friða að hluta. Síðan voru verkefni sem fjárlaganefnd ákvað að styrkja áfram. Það var gert á þeim grunni að veitt hafði verið fjármagn til verkefnisins og það væri ekki hægt að hætta í miðjum klíðum. Ég styð báðar þessar útfærslur, en ég skil alveg vangaveltur þingmannsins og veit að hann er mikill áhugamaður um að taka þetta til gagngerrar skoðunar. Ég hef reyndar verið þeirrar skoðunar lengi að við eigum að færa valdið frekar til Alþingis en frá því. Mér virðast þessar tillögur sem þingmaðurinn nefnir vera meira í þá átt að færa valdið frá Alþingi. Ég held hins vegar að valdið eigi að koma héðan. Það eru tveir hópar, annar er að endurskoða safnliðina og hinn fjárlagagerðina í heild sinni.

Ég endurtek spurningu mína frá því áðan um að færa valdið til framkvæmdarvaldsins: Hverjir eiga þá að skipa í þessar fagnefndir aðrir en t.d. lýðræðislega kjörnir fulltrúar þjóðarinnar? Ég held að við séum að horfa á það núna í fjárlagagerðinni að ráðuneyti og ráðuneytismenn (Forseti hringir.) ráði þar allt of miklu.