139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[22:56]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Það er ljóst að það er von meðan menn eru þetta víðsýnir og vilja skoða hlutina og hafa trú á því að menn geti komist að gáfulegri niðurstöðu. Ég held að það sé akkúrat það sem við eigum að gera. Það átta sig allir á því að það þarf að skera niður. Þess vegna er mikilvægt að hafa samráð og reyna að skapa samstöðu. Þess vegna langar mig að varpa spurningu til hv. þingmanns hvort það sé rétt sem haft var eftir að því er mig minnir hv. þingmanni í fjölmiðlum þegar frumvarpið kom fram í fyrstu að það hafi ekki verið kynnt ríkisstjórnarflokkunum, þ.e. þingflokkum ríkisstjórnarflokkanna. Er það rétt? Mér þykja það frekar undarleg vinnubrögð. Það er kannski í takt við annað sem maður hefur séð hér í þinginu varðandi fjárlögin og fjáraukalögin.