139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[23:05]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hér erum við hv. þm. Ásmundur Einar Daðason ágætlega sammála. Ég tel mikilvægt í þessu efni að tala við fólk, sýna samstarfsvilja og ræða við þá sem reka þessar stofnanir hringinn í kringum landið. Öðruvísi verður ekki farið fram með faglegum hætti í þessum málaflokki. Ég tel afskaplega mikilvægt að við höldum því til haga að umdæmissjúkrahúsin fái að stunda bráðaaðgerðir sakir veðurs og aðstæðna á þeim þremur stöðum sem ég nefndi; Vestmannaeyjum, Ísafirði og Norðfirði. Svo ber að hafa hitt í huga að það er sennilega þjóðhagslega hagkvæmt að reka lyflæknisdeildir víða á þeim sjúkrahúsum sem nú eru fyrir. Ég nefni Húsavík, Sauðárkrók, Fjallabyggð (Forseti hringir.) og svo mætti reyndar áfram telja. Það er hagsælla, mannúðlegra og réttsýnna að fólk (Forseti hringir.) fái að ná sér á lyflæknisdeildum heima í héraði en á dýrari sjúkrahúsum og í dýrari rúmum á bráðasjúkrahúsunum á Akureyri og í Reykjavík. Það er þjóðhagslega hagkvæmt að fólk fái að ná afturbata (Forseti hringir.) heima í héraði.