139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[23:49]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það mátti svo sem búast við því að þrír stjórnarandstæðingar kæmu í andsvar við stjórnarsinnann eftir þessa ræðu. Það er ekkert óeðlilegt við það, það er bara gaman. En hv. þingmaður ræðir um niðurskurðinn í heilbrigðismálum, hvort við erum að koma með þeim og annað slíkt. Ég tók skýrt fram að þetta hefði skánað mikið með því að núverandi hæstv. heilbrigðisráðherra sendi lið sitt um landið. Hér er varanlegur niðurskurður 1.200 millj. tekinn til baka, það er varanlegt. Ég talaði jafnframt um þessi 10–12%, 12% þar sem mest er. Það eru að vísu einhverjar aðgerðir inni sem heilbrigðisráðuneytið gat ekki svarað mér um á stuttum tíma á fundi heilbrigðisnefndar um fjölgun hjúkrunarrýma í 75 eins og hjá Heilbrigðisstofnun Þingeyinga sem við þekkjum auðvitað best til þingmenn kjördæmanna. Ég ætla ekki að blanda mér yfir í aðrar sóknir hvað það varðar einfaldlega vegna þess að ég hef ekki kynnt mér þá starfsemi. Það gera samflokksmenn mínir í öðrum kjördæmum og það gera aðrir þingmenn eðlilega. Við erum sérfræðingar í okkar kjördæmum og það er ekkert óeðlilegt við það hvað þar gerist en ég tek eftir því að það eru minni andmæli frá forsvarsmönnum núna. Ef það á að koma til 500–600 millj. kr. niðurskurðar árið 2012, þá mun fyrst taka verulega í.

Ég tók það skýrt fram, virðulegi forseti, í ræðu minni að ég vænti þess að til þess komi ekki vegna þess að ég hef þá bjargföstu trú að hagvöxtur fari á fulla ferð á næsta ári með atvinnuuppbyggingu sem ég gerði líka að umtalsefni og þá munu skatttekjur ríkissjóðs aukast og þá muni ekki þurfa að koma til þessarar aðfarar nr. 2 við heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni.

Virðulegi forseti. Af því að ég var á íbúafundi í Fjallabyggð, en hv. þingmaður ekki, þá var þar sagt að fyrir fjórum árum, þá var Samfylkingin ekki í ríkisstjórn, ekki Vinstri grænir en Framsóknarflokkur var í stjórn og var boðaður fyrsti niðurskurður á heilbrigðisþjónustunni á Siglufirði (Forseti hringir.) en því var frestað. Það var fyrir fjórum árum.