139. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[01:32]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um að mikilvægt sé að stækka skattstofnana eftir bankahrun, að fara hér í að skattleggja t.d. séreignarlífeyrissparnaðinn, vegna þess að skattstofnar sem hafa hrunið eftir bankahrun eru samkvæmt rannsóknum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins mjög lengi að taka við sér. Jafnvel skattalækkanir munu ekki leiða til mikillar aukningar á skatttekjum, alla vega ekki jafnmikillar aukningar og þær gerðu fyrir hrun. Sú leið sem við gætum og ættum að fara núna er að skoða hvað hefur ekki verið skattlagt áður og leggja skatta á þá stofna.

Hér var nefndur séreignarsparnaður sem er ekki skattlagður við inngreiðslu heldur útgreiðslu. Svo má jafnframt minnast á þann möguleika að skattleggja útstreymi fjármagns um leið og við afnemum gjaldeyrishöftin. Ég mundi gjarnan vilja vita hvað hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson segir um þá leið að afnema þau boð og bönn sem eru á útstreymi fjármagns og setja þess í stað háan skatt á útstreymið.