139. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[02:06]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég kem hérna upp af því að hv. þingmaður var eiginlega kominn í samræður við mig þar sem ég sat í sæti mínu. Hún fjallaði um umsókn um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Hún kom inn á ákveðna þætti sem eru í breytingartillögum meiri hlutans og snúa að ESB-umsókninni. Ég mun í ræðu minni á eftir m.a. koma inn á þetta. Einnig lið sem snýr að svokallaðri sóknaráætlun sem er einnig skilgetið afkvæmi „blessuðu ESB-umsóknarinnar“ en í það er óskað eftir 10 milljóna aukafjárveitingu. Í þetta fóru 25 milljónir á síðasta ári en ekki liggur fyrir samþykkt sóknaráætlun af hálfu Alþingis. Þetta er undir forsætisráðuneytinu.

Varðandi önnur mál sem þessu tengjast. Það er með ólíkindum að ekki sé haldið utan um það hversu mikill kostnaður og tími fer í þessa Evrópusambandsumsókn. Utanríkisráðuneytið heldur ekki utan um það. Það hefur verið óskað eftir upplýsingum um það inni í fjárlaganefnd frá utanríkisráðuneytinu. Ég á von á að það berist milli 2. og 3. umr. Það liggur alveg ljóst fyrir að það verður að skýra út hvar þessir fjármunir liggja og hvað er ætlað í þetta. Hvað eru markaðar tekjur inn í þetta?

Styrkir sem ákveðin ráðuneyti þiggja — það verður líka að koma skýrt fram ef það kemur fjármagn inn í einstakar stofnanir eða inn í einstök ráðuneyti. Það er ekki að sjá í núgildandi fjárlögum eða fjáraukalögum. Þetta virðist allt vera loðið þegar kemur að þessari Evrópusambandsumsókn. Það er alveg ljóst að það fara í þetta fjármunir og tími. Það voru um 20 manns úr sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu úti í Brussel í síðustu viku og einhver hefur skotið lauslega á að um 200 manns í stjórnsýslunni séu að vinna að (Forseti hringir.) þessari Evrópusambandsumsókn.