139. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[02:14]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Fjárlögin eru ramminn um allt starf ríkisins svo miklu skiptir að þau séu vel unnin. Því er dálítið sérstakt að við skulum vera að ræða þau um miðja nótt og spurning hversu faglegt það er um svo mikilvægt mál, eins og sést líka kannski á því spjalli sem hér fer fram.

Ég þakka hv. fjárlaganefnd og starfsmönnum hennar fyrir þeirra miklu vinnu. Þau hafa lagt nótt við dag við að skila okkur þeim tillögum sem nú liggja fyrir og það er vissulega þakkarvert. Segja má að grunnurinn sé í raun tvenns konar, tala má um efnahagslegan grunn þar sem hinir efnahagslegu þættir eru tilteknir, jafnvægi gjalda og tekna, fjármagnskostnaður, skuldbindingar og annað í þeim dúr. Í þeirri hlið hef ég ekki miklar faglegar forsendur til að dæma um gæði en hef væntingar um að sá grunnur sé í nokkuð góðu lagi.

Hin hliðin á grunninum sem mig langar til að ræða frekar um er forgangsröðunin, stefnan, spurningin um í hvað við viljum nýta fjármagnið. Til þess að geta svarað þeirri spurningu þurfum við að vita í hvaða átt við viljum stefna með íslenskt samfélag. Hvernig viljum við sjá íslenska ríkið og íslensku þjóðina koma upp úr öldudalnum? Á því hef ég mínar skoðanir en sem betur fer er mikill fjölbreytileiki meðal þjóðarinnar í þeim skoðunum og þar þarf því að stunda samvinnu og samráð til að komast að samkomulagi og niðurstöðu. Þannig þurfum við að vinna til að fjárlög ríkisins endurspegli forgangsröðun okkar og áherslur. Flest viljum við sjá öflugt atvinnulíf byggt á sterkum efnahag, velferðarkerfi í fremstu röð, menntunarstig eins og best gerist, sterka rannsóknarverð tengda atvinnulífi og akademíu, jafnrétti og mannréttindi í raun, blómlega byggð um allt Ísland og svo mætti lengi telja.

Það fer að steyta aðeins á þegar forgangskröfur og aðferðir eru valdar. Þar koma ólíkar lífsskoðanir og pólitískar áherslur betur fram en í stóru markmiðunum. Aðferðafræði fjárlagagerðarinnar hefur verið áþekk svo árum skiptir. Stórar línur eru ákveðnar og sá rammi sem þær mynda samþykktar. Síðan hefur það verið þannig að hver ráðherra getur innan síns ramma hagað málum nokkuð eftir eigin geðþótta og er nánast ógerlegt að færa milli málaflokka eftir að ramminn hefur verið ákveðinn.

Hér endurspeglast vel sá vandi að íslenska ríkisstjórnin er ekki fjölskipað stjórnvald þar sem ákvarðanir eru teknar sameiginlega heldur ríkir nánast einræðisvald ráðherra hvers málaflokks í úthlutun fjármagns. Afrita og líma eru fínar skipanir í tölvuvinnu en hvergi má ofnota þær. Þær eru þægilegar en ofnýttar þessar tvær skipanir, og svo er smá excel-notkun með prósentuskipunum. Þetta er of einföld aðferðafræði við fjárlagagerð þróaðs ríkis á uppleið eins og Ísland er. Ég treysti hv. formanni fjárlaganefndar kvenna best til að breyta þessari aðferðafræði. Þingið þarf að koma miklu meira að því að móta ramma fjárlaganna samkvæmt markvissri stefnu og forgangsröðun. Það á að vera heimsins eðlilegasti hlutur að á ákveðnum tímamótum einbeiti þingið sér að ákveðnu átaki eða áherslu í tilteknum málaflokkum en slíkt verður auðvitað að hafa ákveðinn aðdraganda svo aðilar máls geti aðlagað sig breytingum.

Þannig birtist ákveðin áhersla núverandi ríkisstjórnar í því að ekki er skorið eins harkalega niður í menntamálum og almenn hagræðingarkrafa gerir ráð fyrir. Það hefði þó mátt gera enn betur og jafnvel gefa í í þessum málaflokki. Menntun og rannsóknir eru mikið sóknarfæri þegar efnahagur brestur eins og hér gerðist. Með því að gefa í á þessum vettvangi er líklegt að nýsköpun nái að skapa störf og framleiðslu sem er einmitt það sem við þurfum á að halda. Segja má að stjórnvöld hafi gert það að hluta til með því að hlífa þessu kerfi og nú hefur sem betur fer hagræðingarkrafa til framhaldsskóla og háskóla verið milduð enn frekar.

Frábært er að fylgjast með því hvernig háskólarnir á Íslandi hafa brugðist við hagræðingarkröfunni með auknu samstarfi og sameiginlegu háskólaneti. Þannig geta breyttar aðstæður orðið til þess að stofnanir hugsa í nýjum brautum og ná fram farsælum nýjum leiðum öllum til góðs.

Framhaldsskólarnir eru aftur á móti komnir í þá stöðu að frekari hagræðing er nánast ógerleg því að rekstrarfé rétt hrekkur fyrir launum og nauðþurftum á sama tíma og nemendur sem áður fóru út á vinnumarkaðinn koma nú inn í skólana og þurfa sitt námsframboð og sinn stuðning. Það er því afar gleðilegt að hagræðingarkrafan á þá hefur verið milduð og sú kjaraskerðing sem leit út fyrir að framhaldsskólakennarar þyrftu að taka á sig slegin af. Hin mikilvæga stétt kennara er svo sannarlega ekki ofhaldin af kjörum sínum.

Frá menntamálunum í heilbrigðismálin. Það var verulegt áfall að sjá hvernig fjárheimildir voru reiknaðar út til heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni í fjárlagafrumvarpinu, allt að 40% niðurskurður á einu ári á stöku stað. Það sjá allir sem á annað borð vilja sjá að það gat ekki gengið.

Eftir yfirferð starfsfólks ráðuneytisins um landið var vandlega farið yfir hlutverk stofnananna og rekstrargrundvöll lítilla eininga og lagðar fram lagfæringar sem við höfum nú til afgreiðslu. Enn er erfitt fyrir einhverjar stofnanir að verða við þessum hagræðingarkröfum en þó allt annað en það sem í upphafi var lagt upp með. Það sem mér fannst erfiðast í þessum hagræðingarkröfum var þrennt: Samráðsleysið við yfirmenn og starfsfólk þeirra stofnana sem áttu að breyta stofnunum sínum í grundvallaratriðum á einu ári, reikniregla sem gekk út frá forsendum þéttbýlis en var notuð á dreifbýli að nokkru leyti og síðan virðingarleysi fyrir því fólki sem unnið hefur hin margvíslegu störf á heilbrigðisstofnunum landsins um árabil og sá á einni prentaðri síðu ævistarf sitt í uppnámi.

Alvarleg birtingarmynd þeirra takmörkuðu vinnubragða sem viðhöfð hafa verið við fjárlagagerðina um árabil birtist mjög ákveðið hér og lífsnauðsynlegt er að breyta þeim til að ná þeim markmiðum að fjármagni sé úthlutað eftir þeirri stefnu sem stjórnvöld fylgja í samstarfi við starfsfólk sitt og fólkið í landinu. Það er flókið í hinum niðurdeilda heimi fjárlaga að niðurskurðartillögur í heilbrigðismálum eru ekki bara heilbrigðismál. Þær eru byggðamál, þær eru atvinnumál og þær eru jafnréttismál í breiðum skilningi þess hugtaks hvað varðar kyn, stéttir og byggðir. Þessir málaflokkar snúa að nánast öllum ráðuneytum og þar með fjárlagaramma þeirra. Skapa þarf leiðir á milli einstakra ramma svo íbúar landsins sjái heildarmynd af útdeilingu fjármagns en ekki margar ólíkar smámyndir sem gefa oft óskiljanlega heildarmynd.

Ein af grundvallarspurningunum sem við þurfum að svara á löggjafarsamkomunni er sú hvort við viljum að Ísland sé allt í byggð eða hvort okkur finnst kannski bara fínt að byggðin sé fyrst og fremst á milli Hvítáa. Allir gera sér grein fyrir því að þjónustan verður ekki eins í þéttbýli og dreifbýli og enginn ætlast til þess. En á meðan allir borga sömu gjöld til ríkisins hljótum við að gera ráð fyrir að ákveðin grunnþjónusta sé veitt um allt land. Til að komast á milli staða sé vegakerfið t.d. sæmandi 21. öldinni, þá eru dreifbýlingar nefnilega alveg tilbúnir að aka svolítið til að ná sér í þjónustu með tilheyrandi virðisauka fyrir ríkiskassann.

Dreifbýlt land er dýrt í rekstri. Hausatöluviðmið eru óréttmæt þar og vanda þarf til þess að skilgreina hvað grunnþjónusta er, hvað er umdæmissjúkrahús, hvað er heilsugæslusjúkrahús o.s.frv. Grunnkostnaður við hverja gerð af stofnun þarf að liggja fyrir og síðan ofan á þær tölur reiknaðar fjarlægðartölur og fjöldaviðmið svo tekin inn í reikningsdæmið. Þessi aðferðafræði á að mínu mati ekki aðeins við um heilbrigðismál heldur flesta málaflokka.

Það gladdi mig mjög að heyra og kom mér reyndar ekki á óvart að formaður fjárlaganefndar, hv. þm. Oddný Harðardóttir, deilir með mér þeirri skoðun að safnliðir fastanefnda þingsins eiga að heyra sögunni til að mestu. Eðlilegt er að fagstofnanir, sjóðir, menningarsamningar og fleiri aðilar í þeim dúr sjái um að útdeila þeim fjármunum sem nefndir þingsins hafa haft til ráðstöfunar. Með þessari breytingu má vænta meiri aga og fagmennsku í úthlutun svo og eftirfylgni með nýtingu fjármagnsins.

Það var líka gleðilegt að heyra við umræðuna um fjáraukann á síðustu dögum að stofnanir ríkisins stunda nú flestar agaðri fjármálastjórnun en áður og halda sig innan fjárheimilda. Það hefur nefnilega stundum verið litið þannig á að opinbert fé lúti öðrum lögmálum en fjármagn sem lýtur markaðslögmálum, í opinbera sjóði megi ganga með óábyrgari hætti en í aðra. Þessu hugarfari þarf að breyta og slíka breytingu má raunar greina eins og ég hef þegar sagt.

Við þurfum að ganga þessa götu til enda með ábyrgri fjármálastjórn og faglegu eftirliti. Við viljum ekki að á hverjum degi þurfi ríkið að greiða 250 millj. kr. í afborganir af lánum til langrar framtíðar. Þess vegna verðum við að skera niður og hækka álögur til að lækka skuldabyrði ríkisins svo fara megi í uppbyggingu sem allra fyrst. Meginmarkmið fjárlaga er að koma á jafnvægi og stöðugleika í ríkisfjármálum til að skapa skilyrði fyrir uppbyggingu í efnahags- og atvinnulífi og framtíðarsvigrúm fyrir öflugt velferðar- og menntakerfi. Þetta jafnvægi og þennan stöðugleika vil ég sjá ásamt bættum vinnubrögðum við fjárlagagerðina. Um það ættu allir þingmenn að geta sammælst þjóð okkar til heilla.