139. löggjafarþing — 45. fundur,  9. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[14:07]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Við greiðum atkvæði við 2. umr. um fjárlagafrumvarp ársins 2011. Það ber þess skýr merki að afleiðingar efnahagshrunsins í kjölfar falls íslensku bankanna haustið 2008 ásamt langvarandi óstjórn í fjármálum ríkisins eru nú að koma fram af fullum þunga um samfélagið allt. Fjárlagafrumvarpið ber þess einnig merki að unnið sé samkvæmt þeirri efnahagsáætlun sem kynnt var á Alþingi á síðasta ári og felur í sér að frumjöfnuður verði orðinn jákvæður á næsta ári og að á árinu 2013 skuli jöfnuði í ríkisfjármálum vera náð.

Sá árangur sem þegar hefur náðst í ríkisfjármálum á undanförnum tveim árum á að vera okkur hvatning til að halda áfram á sömu braut og hvika ekki frá settum markmiðum. Nú reynir því á alþingismenn alla að standa vörð um íslenskt samfélag og skapa þau skilyrði sem nauðsynleg eru til að endurbyggja íslenskt efnahagslíf sem er forsenda þess að hægt sé að skapa það velferðarsamfélag sem við öll viljum búa í. Fjárlagafrumvarpið sem hér er til umræðu mun skapa þau skilyrði nái það fram að ganga þótt það sé þungbært að mörgu leyti fyrir okkur mörg.