139. löggjafarþing — 45. fundur,  9. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[14:24]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Á árinu 2009 þurfti að taka erfiðar ákvarðanir um skattahækkanir sem fólk fann fyrir alls staðar í íslensku samfélagi vegna þess að í góðærinu höfðum við á Alþingi lækkað óábyrgt skatta án þess að hafa efni á því. Það er þess vegna fagnaðarefni að í þessum fjárlögum þarf að ráðast í óverulegar breytingar á sköttum og það tekst að halda óbreyttri tekjuskattsprósentu og óbreyttri virðisaukaskattsprósentu. Áhrif skattbreytinga á vísitölu eru í lágmarki, þ.e. um 0,2%. Hitt er svo athyglisvert að af hálfu Sjálfstæðisflokksins virðist það nokkuð ráðast af því hvort þeir eru í meiri eða minni hluta hjá hinu opinbera hvort þeir fylgja skattahækkunum eða ekki.