139. löggjafarþing — 45. fundur,  9. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[15:56]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Hérna undir eru hin ýmsu framlög til góðgerða- og líknarfélaga, svo sem Félag nýrnasjúkra, Gigtarfélag Íslands, HIV-Ísland, alnæmissamtökin á Íslandi, Hjartaheill, Kraftur, Ljósið, endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð fyrir krabbameinsgreinda og aðstandendur þeirra og MS-félag Íslands.

Allt eru þetta mjög góð verkefni og þörf og unnin meira og minna af sjálfboðaliðum og þeim sem láta sig þessi málefni varða. Það sem ég tel að við á Alþingi ættum miklu frekar að horfa til er hvernig við getum hvatt fólkið í samfélaginu til að styðja við þessi félög. Því hef ég í hyggju að leggja fram breytingartillögu við bandorminn sem kemur væntanlega fljótlega frá efnahags- og skattanefnd sem gerir það að verkum að þegar einstaklingar eða lögaðilar leggja fé til þessara félaga fái þeir skattaívilnun. (Forseti hringir.) Þar með munum við geta stutt enn betur við þessi félög en við gerum nú.