139. löggjafarþing — 45. fundur,  9. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[16:21]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. 12 af 13 heilbrigðisstofnunum hafa fengið leiðréttingar á fjárlagafrumvarpinu. Ein situr eftir, St. Jósefsspítali í Hafnarfirði. Nú er heilbrigðisráðherra búinn að lýsa því yfir að það eigi að sameina St. Jósefsspítala og LSH. Ég ætla ekki endilega að mæla gegn þeirri sameiningu en hana verður að gera á ákveðnum forsendum. Það þarf að eyða óvissu fólksins og það þarf að sýna fram á að þetta sé sameining en ekki yfirtaka. Við getum lesið út úr skjölunum í dag að þetta sé yfirtaka af því að niðurskurðurinn er enn þá allur á St. Jósefsspítala en enginn á móti á LSH.

Í öðru lagi vil ég geta þess sérstaklega að það þarf að gæta að því við þessar viðræður að haft sé samráð og ekki sama vinnulag og var viðhaft við gerð fjárlagafrumvarpsins um heilbrigðismálin. Við þurfum líka að passa upp á þekkinguna sem hefur byggst upp á mörgum áratugum á St. Jósefsspítala varðandi meltingarsjúkdóma (Forseti hringir.) og grindarbotnssjúkdóma í allri þeirri vinnu sem núna er fram undan.