139. löggjafarþing — 46. fundur,  13. des. 2010.

nýr Icesave-samningur.

[10:36]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég talaði um það á vefsíðu minni fyrir stuttu að ég hefði ansi oft orðið fyrir vonbrigðum með skort á hugsjónum í íslenskum stjórnmálum og að það sem einna helst hefði sviðið undan væri sú krafa sem við höfum fundið fyrir að það ættu ekki að vera neinar hugsjónir í stjórnmálum heldur ættu menn bara að fara í verkin og ljúka þeim.

Maður hefur líka séð að allt of oft virðist fólk heldur ekki hafa haft hugrekki til að standa fyrir sínar eigin hugsjónir, en frá þessu eru undantekningar. Ég vil því koma upp í ræðustól og þakka sérstaklega nokkrum þingmönnum fyrir að hafa haft hugrekki og hugsjónir til að standa á skoðun sinni, sérstaklega nefni ég hina svokölluðu villiketti í Vinstri grænum, Ögmund Jónasson, Ásmund Einar Daðason, Lilju Mósesdóttur, Atla Gíslason og Jón Bjarnason.

Ég mundi líka vilja færa formanni Framsóknarflokksins og félögum hans í Indefence kærar þakkir fyrir að hafa staðið á sínu og barist fyrir því að fá betri samning og þá ekki síst þeim tugþúsundum Íslendinga sem höfnuðu þeim samningi sem ríkisstjórnin og stjórnarliðar samþykktu hér á þingi.

Ég vil líka benda á, og ég held að það sé eitthvað sem við ættum að hafa í huga nú þegar við erum að fara að afgreiða ný fjárlög, að þegar við vorum að vinna Icesave-samningana benti hv. þm. Lilja Mósesdóttir ítrekað á mikilvægi þess að bíða, mikilvægi þess að mjög mikil óvissa væri hvað þetta mál varðaði. Þessi þingmaður er sérfræðingur í kreppu og hallæri og hefur varað við stefnu ríkisstjórnarinnar varðandi niðurskurð og þær tillögur sem koma fram í fjárlögunum.

Ég vil spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort hann taki ekki undir þakklæti til þessara einstaklinga og til þjóðarinnar, sem ég hef nefnt hér, og hvort hann sé tilbúinn (Forseti hringir.) til að íhuga afstöðu sína og þá afstöðu sem kom fram í orðum hæstv. forsætisráðherra varðandi það að þingmaður sé tilbúinn til að standa á hugsjónum sínum og hafa hugrekki til þess.