139. löggjafarþing — 46. fundur,  13. des. 2010.

landsdómur og Icesave.

[10:46]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Mikið liggur við. Nú er þetta allt orðið bara ég einn sem hef staðið fyrir öllu sem Alþingi hefur gert í þessum efnum. Ég ruddi enga sérstaka braut í þessu máli. Það tókst gott samkomulag (Gripið fram í: … skrifaðir undir …) — ég er að tala um landsdóm, ég er að tala um það hvernig staðið var að því sameiginlega af hálfu alþingismanna og forustumanna flokka í fyrsta lagi að skipa rannsóknarnefnd Alþingis, í öðru lagi að skipa sérnefnd Alþingis, sem tók við þeim niðurstöðum, og taka síðan afstöðu til tillagna þeirrar nefndar. Þar greiddi ég atkvæði rétt eins og aðrir alþingismenn þannig að ég ruddi þar enga sérstaka braut en ég heyri að sjálfstæðismenn langar til að reyna að skrifa söguna þannig að ég hafi ráðið þessu öllu saman einn og staðið einn að verki. Kannast menn þá lítið við uppruna málsins sem var sú samstaða sem fylgdi málinu allan tímann frá því að það var sett af stað og menn urðu sameiginlega þeirrar skoðunar að setja hér á stóra rannsóknarnefnd. Í góðri samstöðu var síðan sérnefnd Alþingis skipuð og lög sett um hana og síðan fengum við tillögur þeirrar nefndar til að taka afstöðu til og greiddum atkvæði hvert og eitt í salnum. Þannig gekk það mál fyrir sig. Menn geta svo reynt að hafa einhverjar aðrar útgáfur uppi ef þeim svo hentar. (Gripið fram í.) Ég ber ábyrgð á atkvæði mínu hér eins og allir gera og flutti eina stutta ræðu um málið.

Varðandi Icesave-málið skulum við bara bíða og fá þá umræðu þegar við erum komin með afrakstur samninganefndarinnar inn í þingið og þar á meðal mat á kostnaði í þessum efnum. Það er afar sérkennilegt að heyra einhverjar algerlega órökstuddar tölur sem engar reikningslegar forsendur eru sýndar á bak við, upp á einhverja 400 milljarða eða þar ofan í viðbót. Samninganefndin metur þetta sjálf og ef menn hefðu biðlund þá kemur það í greinargerð, þeirri sem verið er að undirbúa með frumvarpinu, útreikningar hennar, og þar er talið að munurinn á gamla og nýja samningnum sé um 110 milljarðar kr. Það er besti útreikningurinn og sá eini sem ég hef séð studdan aðferðafræði sem rök standa til. (Forseti hringir.) Það er mat á þessum tveimur samningum, reiknuðum með nákvæmlega sömu aðferðum, (Forseti hringir.) að annar þeirra gæti þýtt skuldbindingu upp á rúmlega 160 milljarða, hinn tæplega 50.