139. löggjafarþing — 46. fundur,  13. des. 2010.

niðurstaða loftslagsráðstefnu í Mexíkó.

[11:00]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga máli. Það er hollt og gagnlegt fyrir þingheim að horfa stundum upp úr kreppunni heima á Íslandi og út fyrir verkefni og viðfangsefni okkar hér. Stærstu viðfangsefni 21. aldarinnar snúa velflest að umhverfismálum, að hluta til að loftslagsmálum en líka að því er varðar fækkun tegundanna og í því efni tókst líka ákveðinn áfangi á fundi um líffræðilegan fjölbreytileika í Japan á dögunum.

Þingmaðurinn vekur athygli á því að íslenska sendinefndin hafi náð árangri og ég vil nota þetta tækifæri til að nefna formann íslensku sendinefndarinnar, Huga Ólafsson, starfsmann umhverfisráðuneytisins, sem hefur haldið á þessu síðustu missirin því að það verður gríðarlega mikilvægur áfangi að vernd og endurheimt votlendis verði viðurkennd leið til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Það hefur ekki áður verið og hér er ekki bara um beina loftslagsaðgerð að ræða heldur ekki síður náttúruverndaraðgerð. Á Íslandi sjáum við sem betur fer mörg dæmi þess að votlendi hefur verið endurheimt í þágu fuglalífs, náttúruverndar og endurheimtar lífríkisins.

Varðandi spurningu þingmannsins um það hvernig nákvæmlega þessi þáttur kemur við okkur styrkir hún auðvitað áætlun okkar um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda vegna þess að nú höfum við fengið alþjóðlega viðurkenningu á þessum þætti. Þó er mikilvægt að halda því til haga að hér hefur verið gengið frá tæknilegri skilgreiningu á framkvæmd tillögu Íslands en endanleg samþykkt hennar bíður auðvitað samkomulags um framhald Kyoto-bókunarinnar sem við væntum að náist botn í, og verður einfaldlega að nást botn í á næsta ári.