139. löggjafarþing — 46. fundur,  13. des. 2010.

menningar- og heilsutengd ferðaþjónusta á höfuðborgarsvæðinu.

207. mál
[11:05]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ragnheiður Ríkharðsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég ræði hér styrkveitingar í ferðamálum og vísa til þess að mér sýnist sem styrkveitingar frá Ferðamálastofu fari sjaldnast eða aldrei til höfuðborgarsvæðisins. Í munnlegum skilaboðum sem bárust frá Ferðamálastofu er því haldið fram að það þýddi ekkert fyrir sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu að sækja um slíka styrki því að þeim væri alltaf úthlutað til verkefna á landsbyggðinni.

Ferðamálaráð úthlutar árlega styrkjum til úrbóta á ferðamannastöðum og um er að ræða smærri styrki og stærri og þeir eru bæði til úrbóta og uppbyggingar á nýjum svæðum fyrir ferðamenn. Í reglum sjóðsins segir að ekki sé sérstaklega litið til dreifingar verkefna eftir landshlutum en við skoðun á úthlutun styrkja sem eru aðgengilegar á heimasíðu Ferðamálaráðs kemur hins vegar í ljós þegar skoðað er hvernig þessir styrkir dreifast eftir landshlutum og verkefnum að Ferðamálaráð sniðgengur með öllu höfuðborgarsvæðið.

Frú forseti. Þetta er ekki ásættanlegt fyrirkomulag því að það hamlar framgangi og uppbyggingu nýrra ferðamannastaða á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er skattfé borgaranna og þeir búa líka á höfuðborgarsvæðinu. Því vil ég spyrja hæstv. iðnaðarráðherra hvort hann hyggist skoða þetta frekar og hvort hæstv. ráðherra vilji beita sér fyrir því að sveitarfélög og einstaklingar á höfuðborgarsvæðinu sem áhuga hafa á slíku geti notið þess og fengið tækifæri til að sækja um styrki, ýta úr vör eða styðja við þegar hafna starfsemi, t.d. við menningartengda ferðaþjónustu sem og heilsutengda sem hæstv. iðnaðarráðherra hefur margoft rætt um sem sprota og nýsköpun sem vert sé að vekja athygli á. Vill hæstv. ráðherra leggja áherslu á það vegna breyttra aðstæðna í samfélaginu að hugsanlega megi beina þeim tilmælum til Ferðamálastofu og þeirra sem úthluta styrkjum að hér sitji öll svæði landsins við sama borð? Það þarf ekki að breyta reglum vegna þess að reglurnar eru klárar, heldur leggja áherslu á að þetta sé ekki dreifbýli andspænis þéttbýli eða dreifbýli andspænis höfuðborgarsvæði.