139. löggjafarþing — 46. fundur,  13. des. 2010.

menningar- og heilsutengd ferðaþjónusta á höfuðborgarsvæðinu.

207. mál
[11:14]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Þetta var fróðlegur fyrirlestur hjá hæstv. ráðherra við ágætri fyrirspurn hv. þingmanns. Meginatriðið er samt að það er rétt sem þingmaðurinn sagði, styrkir frá Ferðamálastofu fara bara út á land. Það er það sem stendur eftir þó að margt sé ágætlega gert í iðnaðarráðuneytinu og annars staðar í stjórnsýslunni. Okkur Reykvíkingum og öðru fólki á suðvesturhorninu, í landnámi Ingólfs, þar sem búa um það bil 63% landsmanna, er farið að finnast eftir umræður á þinginu og annars staðar um þessi mál sem stjórnsýsla og stoðkerfi ýmiss konar séu einkum hugsuð fyrir svokallaða landsbyggð og megi ekki koma nálægt suðvesturhorninu. Þetta er náttúrlega ekki gott því að ef þetta heldur áfram verða ekki bara tvær þjóðir í landinu heldur tvö ríki, annars vegar landsbyggðin með sovéskt ríkiskerfi (Forseti hringir.) og hins vegar venjulegt norrænt velferðarkerfi í höfuðborginni. Eigum við ekki að koma í veg fyrir það, forseti?